Fara í efni

Varað við vöru sem seld er sem Sorbitól

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun hafa borist upplýsingar í gegnum hraðviðvörunarkerfi Evrópu fyrir matvæli og fóður (RASFF), um sorbitól á markaði, sem er í raun natríumnítrít. Varan hefur verið fáanleg í netsölu á eBay og er ekki hægt að útiloka að hún hafi jafnframt verið markaðssett með öðrum hætti. Matvælastofnun varar því sterklega við neyslu/notkun sorbítóls sem merkt er eftirfarandi fyrirtækjum:

CARGILL (Ítalíu og Bretlandi)
MISTRAL - R&D Laboratories Ltd. (Bretlandi)
BRENNTAG (Bretlandi)
WAEDENSWILL (Sviss)
KREFELD (Þýskalandi)
OVERLACK (Þýskalandi)

  Skaðsemi vörunnar uppgötvaðist á einkastofu læknis á Ítalíu þar sem gerð var óþolsmæling á sjúklingum fyrir sorbitóli. Einn sjúklingur lést og eru tveir landsmenn hans þungt haldnir á sjúkrahúsi.

Sorbitól er aukefni sem notað er sem sætuefni í matvælavinnslu og sem hægðalosandi efni. Natríumnítrít er aukefni sem notað er í matvælavinnslu til að auka geymsluþol. Umrædd vara var merkt sem sorbitól en reyndist vera natríumnítrít skv. efnamælingum. Natríumnítrít er hættulegt í háum skömmtum.

Verið er að afla upplýsinga um hvort þessi vara hafi verið flutt til Íslands og verða nánari upplýsingar birtar um leið og þær liggja fyrir. Matvælastofnun hefur jafnframt upplýst heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga, Landlæknisembættið og Lyfjastofnun um málið.

Þeir sem kunna að hafa keypt sorbitól í netsölu frá útlöndum ber að forðast neyslu/notkun þess ef varan er merkt ofangreindum fyrirtækjum. Ef vafi leikur á uppruna sorbitóls, vinsamlega hafið samband við Herdísi Guðjónsdóttur hjá Matvælastofnun í síma 530-4800.

Samkvæmt upplýsingum stofnunarinnar hefur eBay stöðvað netsölu á umræddri vöru á heimsvísu, en hér er lýsing á þeirri vöru sem seld var á eBay:

Sorbitol food grade
CAS Number: 50-70-4 / lot number:05040435
5 Kg
barcode 16027122560201 J (IT-0833)
Framleiðandi: CARGILL s.r.l. Div.Amldi-Der-Spec.
Dreifingaraðili: Brenntag UK Ltd. (Bretland)
Seljandi: MISTRAL - R&D Laboratories Ltd. (Bretland)


Getum við bætt efni síðunnar?