Fara í efni

Vanmerktur ofnæmisvaldur í kjúklingabollum

Matvælastofnun barst ábending um ofnæmis- og óþolsvald (soja) í kjúklingabollum án þess að það kom fram í innihaldslýsingu. Barn á leikskólaaldri fékk bráðaofnæmi og var flutt á bráðamóttöku eftir að hafa borðað umræddar kjúklingabollur.

Kjúklingabollurnar voru einungis seldar til eins viðskiptavinar og því var dreifing mjög takmörkuð og varan hefur verið tekin af markaði.

Matvælastofnun ítrekar að matvælafyrirtæki, þ.e. framleiðendur, verslanir og veitingastaðir, sem framleiða, selja og bera fram matvæli, bera sjálf ábyrgð á því að fylgja reglum við merkingar og aðra upplýsingagjöf um matvæli sem þau framleiða og eða selja svo að neytendur geti treyst á þær séu réttar.

Verklag skal vera til staðar sem að tryggir að þess sé ávallt gætt að réttar upplýsingar séu á miðum, forprentuðum umbúðum, fylgiskjölum, vefsíðum og öðru kynningarefni, eftir því sem við á, og þær séu samkvæmt kröfum reglugerða sem varða merkingar/upplýsingar matvæla.

Ítarefni:

https://www.mast.is/is/matvaelafyrirtaeki/merkingar/ofnaemis-og-otholsvaldar

Ofnæmis- og óþolsvaldar þurfa að koma fram á umbúðum á skýran hátt í samræmi við 21. gr. reglugerð ESB nr. 1169/2011 (ísl. Reglugerð nr. 1294/2014). Þeir skulu vera merktir með leturgerð sem er frábrugðin öðrum innihaldsefnum

Listinn hér á eftir sýnir algengustu fæðuofnæmis- og óþolsvaldana sem eiga ávallt að vera merktir á skýran hátt og eða upplýst um þá, jafnvel þó að þeir eða afurðir úr þeim séu í mjög litlu magni í matvælunum. Skylt er að upplýsa um þá bæði í pökkuðum og ópökkuðum matvælum. Sjá c-lið 1. mgr. 9. greinar, 21. grein og II. viðauka í reglugerð ESB nr. 1169/2011 (ísl. reglugerð nr. 1294/2014).

Listi í II. viðauka:

 1. Kornvörur sem innihalda glúten: Hveiti, rúgur, bygg, hafrar, spelt, taumhveiti (kamut) eða blendingar þeirra og afurðir úr þeim.
 2. Krabbadýr og afurðir úr þeim.
 3. Egg og afurðir úr þeim.
 4. Fiskur og fiskafurðir.
 5. Jarðhnetur og afurðir úr þeim.
 6. Sojabaunir og afurðir úr þeim.
 7. Mjólk og mjólkurafurðir (þ.m.t. laktósi).
 8. Hnetur: Möndlur, heslihnetur, valhnetur, kasjúhnetur, pekanhnetur, parahnetur, pistasíuhnetur, goðahnetur eða queensland hnetur (Macadamia hnetur) og afurðir úr þeim.
 9. Sellerí og afurðir úr því.
 10. Sinnep og afurðir úr því.
 11. Sesamfræ og afurðir úr þeim.
 12. Brennisteinsdíoxíð og súlfít: í styrk yfir 10 mg/kg eða 10 ml/lítra og gefið upp sem heildarstyrkur SO2.
 13. Lúpína og afurðir úr henni.
 14. Lindýr og afurðir úr þeim.

Getum við bætt efni síðunnar?