Betri árangur við innflutningseftirlit skv. skýrslu ESA
Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur birt skýrslu með niðurstöðum úttektar sem framkvæmd var 10.-24. september 2024.
Helstu niðurstöður úttektarinnar voru þær að úrbætur hefðu verið gerðar á innflutningseftirliti frá fyrri úttekt sem fór fram árið 2017, starfsfólk væri reynslumikið og vel þjálfað og að landamæraeftirlitsstöðvar uppfylltu almennt kröfur um þá flokka dýra og vara sem þær hafa verið tilnefndar fyrir.
Tilgangur úttektarinnar var að staðfesta að opinbert innflutningseftirlit með afurðum úr dýraríkinu, samsettum matvælum og lifandi lagardýrum væri í samræmi við löggjöf Evrópusambandsins þar að lútandi sem innleidd hefur verið á Íslandi skv. EES samningnum.
Umfang úttektarinnar tók til skjalfestra verklagsreglna og tengdra ferla varðandi eftirfarandi:
- Umgjörð um innflutningseftirlit, þ.m.t. samstarf viðkomandi lögbærra yfirvalda.
- Kerfi til auðkenningar og for-tilkynninga sendinga.
- Starfsemi landamæraeftirlitsstöðva.
- Heilbrigðiseftirlit með innfluttum dýraafurðum og lagardýrum.
- Notkun TRACES og samræmda heilbrigðis- og innflutningsskjalsins (CHED - Common Health Entry Document).
- Tollmeðferð sendinga.
- Sannprófun eftirlits.
Jafnframt var lagt mat á stöðu mála sem tekin voru fyrir í áminningarbréfi sem sent var Íslandi 8. maí 2024 sem fjallaði um að vöktun lögbærra yfirvalda á innflutningi væri ábótavant og þar með hætt við því að eftirlitsskyldar afurðir færu á markað án þess að hafa undirgengist eftirlit. Það mál er í sérstöku ferli og ekki tekið fyrir í þessari skýrslu.
Helstu niðurstöður úttektarinnar voru þær að úrbætur hefðu verið gerðar á flestum þáttum, þó er skjalfestum verklagsreglum um endurinnflutning og eftirfylgni vöru ábótavant. Slíkt getur leitt til ósamræmis og mistaka í eftirliti og aukið hættuna á að óöruggar vörur séu settar á EES markað. Sendingum sem fara á stýrðan ákvörðunarstað er ekki alltaf fylgt eftir sem eykur hættuna á því að sendingar, sem hafa verið endursendar til Íslands, séu meðhöndlaðar á rangan hátt.
Í skýrslunni er þremur tilmælum beint til íslenskra lögbærra yfirvalda, sem miða að því að ráða bót á þeim annmörkum sem komið hafa í ljós og efla hið opinbera eftirlitskerfi sem fyrir er.
Matvælastofnun hefur þegar brugðist við athugasemdunum og gert áætlun um úrbætur í samvinnu við tollayfirvöld.