Upprunagreining laxa sem veiðst hafa í ám – uppfært 09.10.2025
Sameiginleg frétt Matvælastofnunar, Fiskistofu og Hafrannsóknastofnunar um stöðu upprunagreininga laxa sem veiðst hafa.
Alls hafa 23 laxar borist til Hafrannsóknastofnunar til rannsóknar og erfðagreiningar en að auki hafa 11 laxar verið sendir til erfðagreiningar en ekki verið skilað til Hafrannsóknastofnunar. Af þeim fiskum sem bárust til Hafrannsóknastofnunar reyndust 9 vera eldislaxar og 3 að auki sem ekki var skilað inn, samtals 12 staðfestir eldislaxar og 22 sem reyndust með villtan uppruna. Eldislaxarnir veiddust í Haukadalsá, Hrútafjarðará, Vatnsdalsá, Blöndu, Reykjadalsá í Borgarfirði og Miðfjarðará. Til viðbótar er eitt sýni af laxi sem veiddist í byrjun október í Ytri-Rangá, í upprunagreiningu.
Í neðangreindri töflu má sjá sundurliðað fjölda fiska sem veiðst hafa, uppruna þeirra og fjölda fiska sem borist hafa til Hafrannsóknastofnunar til rannsóknar.
Matvælastofnun vinnur að rannsókn á uppruna eldislaxa þar sem erfðagreining gefur upplýsingar um hvar hrogn voru tekin inn í seiðastöð og svo er eldisferill laxanna rakinn út í sjókvíar. Matvælastofnun mun birta niðurstöðu rannsóknar sinnar þegar stjórnsýslulegu ferli er lokið og eftirlitsskýrslur birtar á mælaborði fiskeldis.
Þrír eldislaxar eru útilokaðir frá rannsókn vegna þess að Matvælastofnun getur ekki byggt rannsókn sína á löxum sem ekki berast til Hafrannsóknastofnunar þar sem ekki er hægt að rannsaka þá laxa með fullnægjandi hætti.
Niðurstöður úr greiningum á hreistri benda til þess að þeir 14 laxar sem skilað var til Hafrannsóknastofnunar og reyndust vera villtir, höfðu einhver ytri einkenni sem gætu bent til mögulegs eldisuppruna og voru rannsakaðir með erfðagreiningu. Sú greining staðfesti að um villta laxa var að ræða. Útlitseinkenni eldislaxa geta m.a. verið stutt og aflöguð trjóna, tálknbörð slitin, eyr -og bakuggar slitnir eða eyddir, og brot eða uggageislar samgrónir auk þess sem sporður er oft slitinn eða eyddur sjá hér.
Greining á hreistri getur gefið upplýsingar um hvort fiskar séu villtir eða upprunnir úr eldi. Það þarf þó ekki að vera einhlítt þar sem atburðir í lífi fiska í eldi geta orsakað svipað mynstur í hreistri og sést í villtum fiskum þótt það sé frekar sjaldgæft. Því er greining á erfðaefni mun nákvæmari til að greina uppruna fiska. Ef laxar hafa hrygnt áður koma ummerki um það í hreistrið sem eru kölluð gotmerki. Af villtu löxunum voru 10 laxar með merki um fyrri hrygningu, 7 þeirra höfðu gotmerki sem sýndu að þeir voru að koma til annarrar hrygningar, 2 fiskar til þriðju hrygningar og 1 til fjórðu hrygningar.
Laxar verða oft fyrir hnjaski við hrygningu sem getur skýrt útlitseinkenni sem líkjast eldislöxum. Veiðimenn og veiðiréttarhafar eru enn hvattir til að skila fiskum til rannsókna ef útlit þeirra bendi til að um eldislaxa geti verið að ræða.
Stofnanirnar þrjár starfa áfram saman að rannsókn málsins og veita upplýsingar þegar frekari niðurstöður liggja fyrir.
Ef lax með eldiseinkenni veiðist er þess óskað að veiðiaðili skili fisknum í heilu lagi til Hafrannsóknastofnunar til rannsókna og erfðagreiningar.