Fara í efni

Slefsýki - ábyrg notkun sýklalyfja

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Nú í aðdraganda sauðburðar hefur Matvælastofnun uppfært leiðbeiningar á heimasíðu sinni um ábyrga notkun á sýklalyfjum við slefsýki í lömbum með hliðsjón af nýjum reglum Evrópusambandsins og Íslands um dýralyf. Þó sýklalyfjanotkun í búfé sé lítil hérlendis er nauðsynlegt að endurskoða vinnubrögð í tengslum við notkun sýklalyfja, sér í lagi er varðar sýklalyf sem fyrirbyggjandi meðhöndlun, sem nú er bönnuð. Eftirlit Matvælastofnunar með sýklalyfjaónæmi hefur sýnt fram á að ónæmi er til staðar í íslensku búfé, þ.m.t. í lömbum.

Á undanförnum árum hefur verið mikið um að sýklalyf séu notuð fyrirbyggjandi gegn slefsýki í öll nýfædd lömb á mörgum búum ár hvert, með því að gefa svokallaðar „lambatöflur“, en sýkingin er af völdum E. coli baktería. Með nýjum reglum er slík fyrirbyggjandi meðhöndlun bönnuð. Þess í stað ætti að beita aðferðum sem minnka líkur á að smit berist í nýfædd lömb og aðeins gefa þeim sýklalyf eftir að sjúkdómsgreining liggur fyrir í hópnum það vorið, svokölluð verndarmeðferð.

Röng og óhófleg notkun á sýklalyfjum getur leitt til þess að bakteríur mynda ónæmi gegn sýklalyfjum og geta slíkar bakteríur borist á milli manna, dýra og umhverfis. Ábyrg og skynsamleg notkun sýklalyfja í dýrum er mikilvægur liður í að sporna við myndun sýklalyfjaónæmis.

Með því að leggja áherslu á góða búskaparhætti, sóttvarnir og hreinlæti er stuðlað að heilbrigði dýra og þannig dregið úr þörf fyrir sýklalyf. Við höfum öll hlutverki að gegna í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi og árangur næst aðeins með sameiginlegu átaki dýralækna og bænda. Mikilvægt er að gott samstarf ríki á milli bænda og dýralækna og skulu bændur aðeins nota lyf í samráði við dýralækni.

Einnig má árétta mikilvægi þess að staðið sé vel að skráningum á lyfjanotkun í dýrum. Slíkar upplýsingar eru mikilvægar til að vita magn og þróun á notkun sýklalyfja, til að meta áhrif ráðstafana sem gerðar hafa verið og til að kanna tengsl sýklalyfjanotkunar við sýklalyfjaónæmi. Upplýsingarnar geta einnig gefið til kynna hvar hægt sé að bæta árangur en auk þess sýnt hvar vel er staðið að málum.

Ítarefni

Upplýsingasíða MAST um slefsýki

Upplýsingasíða MAST um sýklalyfjaónæmi

Fimm "einungis" reglur um notkun á sýklalyfjum

Hlutverk bænda í baráttunni við sýklalyfjaónæmi 


Getum við bætt efni síðunnar?