Fara í efni

Matvælastofnun kærir innflutning á hundum

Matvælastofnun hefur sent þrjár kærur til lögreglu vegna ólöglegs innflutnings á hundum.

Um er að ræða þrjú aðskilin tilvik þar sem ferðamenn komu í andstöðu við lög um innflutning dýra með hunda sína til landsins í farþegarými flugvéla. Flutningur hundanna til landsins uppgötvaðist ekki fyrr en Matvælastofnun barst tilkynning frá yfirvöldum á Keflavíkurflugvelli þegar ferðamennirnir hugðust innrita sig í flug frá landinu eftir nokkurra daga dvöl með hunda sína. Matvælastofnun heimilaði ekki brottför fyrr en hundarnir höfðu undirgengist heilbrigðisskoðun og sýnatökur á kostnað eigenda. Í einu tilvikanna greindist sníkjudýr sem ekki hefur greinst hérlendis áður. Samkvæmt þeim upplýsingum sem stofnunin hefur var hundurinn ekki í samskiptum við önnur dýr á tíma sínum hérlendis og vegna þess hversu kalt var í veðri telur stofnunin ólíklegt að ormar/egg hafi lifað af, hafi eigandi ekki hirt eftir hundinn.

Samkvæmt lögum um innflutning dýra er óheimilt að flytja til landsins hvers konar dýr og erfðaefni þeirra. Ástæðan fyrir þessu banni er sú að vernda þau dýr sem fyrir eru í landinu og sömuleiðis mannfólk fyrir smitandi sjúkdómum og sníkjudýrum sem geta borist með innflutningi dýra. Einungis er heimilt að víkja frá banni við innflutning að uppfylltum ströngum skilyrðum og skv. sérstöku leyfi Matvælastofnunar. Í lögunum segir að það verði viðkomandi fjársekt ef brotið er gegn ákvæðum laganna.

Matvælastofnun lítur ólöglegan innflutning á dýrum alvarlegum augum, enda gilda um innflutninginn strangar reglur vegna áhættu á því að hingað berist dýrasjúkdómar og vísaði málunum til lögreglu.

Með nýlegri breytingu sem gerð var á reglugerð um innflutning hunda og katta, þess efnis að ekki verður lengur heimilt að flytja hunda og ketti í farþegarými flugvéla, er ætlunin að girða fyrir svona ólöglegan innflutning dýra þar sem farþegar hafa geta komist óáreittir með dýr sín í flug til Íslands og í gegnum Keflavíkurflugvöll.

 

Ítarefni:


Getum við bætt efni síðunnar?