Fara í efni

Innkallanir vegna Etýlen oxíðs í matvælum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Rúmt síðasta ár hafa neytendur líklega orðið  varir við innkallanir á ýmsum matvælum vegna etýlen oxíð mengunar. Í flestum tilfellum er um það að ræða að efnið hefur greinst í hráefni t.d. ákveðnum aukefnum, kyddum eða sesamfræjum, sem eru innihaldsefni matvælanna sem hafa verið  innkölluð.

Etýlen oxíð

Etýlen oxíð er efni sem hefur skaðleg áhrif á erfðaefni líkamans. Það þýðir t.d. að það getur aukið líkur á krabbameini. Jafnvel lítið magn af efninu getur verið skaðlegt. Matvælalöggjöf Evrópusambandsins er ætlað að veita mikla neytendavernd. Ekki er heimilt að meðhöndla matvæli með efninu skv. löggjöf. Þar sem óleyfilegt er að nota efnið við framleiðslu matvæla eru öll matvæli sem efnið greinist í óleyfileg á markaði. Jafnframt eru matvæli sem í hafa verið notuð hráefni sem efnið greinist í óleyfileg á markaði. Notkun efnisins við framleiðslu matvæla er þó ekki bönnuð í öllum heimsálfum og er það þá notað til að sótthreinsa matvæli (minnka magn örvera t.d. salmonellu). Um allan heim er efnið notað við sótthreinsun á lækningatækjum.

Innkallanir

Í mörgum þeim tilfellum sem vörur hafa verið innkallaðar, greindist efnið ekki í vörunni sjálfri,  heldur í einhverju hráefni sem notað var í vöruna. Efnið er því oftast í afar litlu magni í matvælunum sem eru innkölluð. Í varúðarskyni er samt sem áður talin ástæða til að innkalla vörurnar.  

Rannsóknir sýna fram á skaðleg áhrif samfara innöndun. Lítið er um rannsóknir á inntöku um meltingarveg. Flest þau áhrif sem vitað er að komið hafa fram hjá mönnum eru á fólki sem vinnur með efnið við efnaframleiðslu eða við sótthreinsun.

Skaðlegustu áhrifin verða þegar mikið magn efnisins er innbyrt. Magnið sem er í matvælum sem hafa verið innkölluð er í flestum tilfellum mjög lítið og ekki bráð hætta á ferðum fyrir neytendur en eins og fyrr segir er ekki hægt að útiloka skaðleg áhrif á heilsu.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?