Fara í efni

Förgun á laxi á sunnanverðum Vestfjörðum

Laxeldisfyrirtækjum á sunnanverðum Vestfjörðum hefur gengið erfiðlega að hafa stjórn á fjölgun laxalúsar í sjóeldiskvíum í Patreksfjarðarflóa síðan í vor.

Síðan í vor hefur Matvælastofnun beint þeim tilmælum til viðkomandi fyrirtækja að útvega sem fyrst erlendis frá svonefnt meðhöndlunarskip sem gerir það kleift að meðhöndla lax gegn lús án lyfja. Um er að ræða meðhöndlanir eins og ferskvatnsmeðhöndlun, hitameðhöndlun og burstun. Slík meðhöndlun drepur lúsina á öllum stigum og hefur nær engin umhverfisáhrif.

Tilraunir voru gerðar í haust af fyrirtækjunum til að fá til landsins meðhöndlunarskip en svo virðist sem fyrirvarinn hafi þurft að vera meiri, eftirspurn er mikil eftir umræddum skipum.

Ekki náðist því að fá skip til landsins fyrr en um miðjan október. Að mati Matvælastofnunar er nauðsynlegt að slíkt skip sé staðsett á Vestfjörðum frá maí og fram í október ár hvert og stefna fyrirtækin á að svo verði frá og með vorinu 2024.

Rannsóknir á fiskum úr Táknafirði hafa leitt í ljós að umhverfisbakteríur (m.a. Tenacibaculum sp.) hafa sýkt sárin sem mynduðust vegna lúsa og gert þau mun umfangsmeiri. Þessi sár gera það að verkum að fiskurinn missir getuna til að halda lífsnauðsynlegu jónajafnvægi í líkamanum. Í Tálknafirði hefur þetta gert það að verkum að hluti fisksins hefur veiklast á skömmum tíma. Sá fiskur sem nú er verið að farga fer í meltugerð sem notuð er m.a. í loðdýrafóður. Fiskurinn fer ekki til manneldis.

Matvælastofnun mun fara yfir atburðarásina með fyrirtækjunum þegar aðgerðum er lokið og leggja til leiðir sem ættu að takmarka slíka atburði í framtíðinni.


Getum við bætt efni síðunnar?