Fara í efni

Blóðtaka úr fylfullum hryssum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun hefur til rannsóknar myndband frá dýraverndarsamtökunum AWF/TSB (Animal Welfare Foundation/Tierschutzbund Zürich) sem sýnir myndbrot frá blóðtöku úr fylfullum hryssum. Verklag sem þar kemur fram virðist stríða gegn starfsskilyrðum starfseminnar sem eiga að tryggja velferð hryssnanna. Matvælastofnun lítur málið avarlegum augum.

Eftirlit með blóðtöku úr fylfullum hryssum er áhættumiðað og í forgangi hjá Matvælastofnun. Frá gildistöku reglugerðar um velferð hrossa nr. 910/2014, hefur Matvælastofnun sett skýr skilyrði fyrir blóðtöku úr fylfullum hryssum og aukið eftirlit með starfseminni jafnt og þétt. Samhliða því hefur greinin verið í miklum vexti, en í ár voru 5383 hryssur nýttar í þessa starfsemi á 119 starfsstöðvum (bæjum).

Reglubundið eftirlit er tvíþætt: Annars vegar eftirlit með velferð, aðbúnaði og ástandi hrossa sem tengjast starfseminni hjá umráðamönnum þeirra samkvæmt skoðunarhandbók. Hins vegar er um að ræða sérstakt eftirlit með velferð hryssna við blóðtöku. Sú starfsemi er háð tilgreindum skilyrðum sem Matvælastofnun setur. Sjálf blóðtakan er á ábyrgð líftæknifyrirtækisins Ísteka ehf, sem nýtir afurðina, en dýralæknar á vegum þess sjá um framkvæmd blóðtökunnar. Þá er gerð krafa um virkt innra eftirlit Ísteka ehf með velferð hryssnanna á blóðtökutímabilinu og árlega skýrslu þar að lútandi.   

Áhersla á eftirlit hefur verið aukið og er í stöðugri endurskoðun. Matvælastofnun heimsækir nú um 20% starfsstöðva árlega á meðan á blóðtöku stendur og önnur 20% fá heimsóknir eftirlitsmanna yfir vetrartímann. Alls eru því um 40% starfsstöðva heimsótt árlega. Við frávik eru lagðar fram kröfur til úrbóta og þeim fylgt eftir með eftirfylgnisheimsóknum. Ef alvarleg frávik koma í ljós við eftirlitið er starfsemin tafarlaust stöðvuð. Alls hefur komið til stöðvunar á starfsemi á 5 starfsstöðvum frá 2014.

Reglulega er fylgst með blóðbúskap hryssnanna og sýna þær rannsóknir að blóðtakan, eins og hún er framkvæmd hér á landi, er innan ásættanlegra marka fyrir heilsu þeirra og velferð og hryssurnar eiga auðvelt með að vega upp blóðtapið. Frá því farið var að skrá afföll tengd blóðtökunni, vegna slysa eða veikinda, hafa þau verið < 1/1000 árlega sem er með því allra lægsta sem þekkist í búfjárhaldi almennt og ending hryssnanna er góð. Sömuleiðis er hverfandi lítið um efnaskiptasjúkdóma í tengslum við blóðtökuna (framleiðslusjúkdóma) sem og aðra sjúkdóma. Þá er staða smitsjúkdóma í íslenska hrossastofninum einstök á heimsvísu.

Það er mat Matvælastofnunar að blóðtaka úr fylfullum hryssum, sem framkvæmd er samkvæmt skilyrðum stofnunarinnar, sé í samræmi við lög nr 55/2013 um velferð dýra.  

Ítarefni

Skilyrði fyrir blóðtöku úr fylfullum hryssum


Getum við bætt efni síðunnar?