Fara í efni

Bisfenól-a í barnapelum - Leiðbeiningar til foreldra

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
Hvernig hægt er að lágmarka flæði efnisins BPA úr barnapelum?

Efnið Bisfenól-A (BPA) er lífrænt efnasamband sem notað er við framleiðslu á ýmsum plastefnum eins og t.d. pólýkarbónat plasti. Pólýkarbónat plast er gegnsætt hart plast sem meðal annars er notað í barnapela. Mikil umræða hefur skapast um allan heim um hugsanleg skaðleg áhrif efnisins og þá sérstaklega á ungbörn en lítið magn efnisins flæðir úr plastinu yfir í matvæli/vökva.



  Enn hefur ekki verið sýnt fram á að BPA sé hættulegt í því magni sem það er notað, hvorki gagnvart börnum né fullorðnum. Nýlegar rannsóknir hafa þó vakið áhyggjur sérfræðinga og eru flestir sammála um að þörf sé á frekari rannsóknum og þá sérstaklega með tilliti til barna.

Á meðan beðið er eftir nýju áhættumati frá Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) sem væntanlegt er í september nk. hvetur Matvælastofnun foreldra ungra barna að fara eftir eftirfarandi leiðbeiningum til að lágmarka flæði BPA úr barnapelum yfir í drykk barnsins.

1. Henda rispuðum pelum eða pelum með sprungum í


Slitinn barnapeli gæti haft sprungur sem sýklar safnast fyrir í og erfitt er að þrífa og ef pelinn inniheldur BPA gæti það flætt yfir í vökvann í meira magni en ella.

2. Hitastig skiptir miklu máli


Það skiptir máli hvernig hita á t.d. brjóstamjólk eða þurrmjólk. Rannsóknir hafa sýnt að BPA getur flætt í litlu magni yfir í mat og/eða drykk. Meira magn efnisins flæðir ef sjóðandi eða heitt vatn/matvæli er sett í ílát sem inniheldur BPA.


  • Ekki setja sjóðandi eða mjög heitt vatn ásamt þurrmjólk eða annan heitan vökva í barnapela sem inniheldur BPA þegar verið er að undirbúa blönduna fyrir barnið.
  • Áður en vatninu er blandað við mjólkurduftið er best að setja sjóðandi vatn í ílát sem inniheldur ekki BPA og leyfa því að kólna þar til það er orðið volgt.
  • Þurrmjólk sem er tilbúin til neyslu er í lagi að nota við stofuhita eða velgja hana örlítið með því að setja pelann í heitt vatn úr krananum.
  • Hitið aldrei barnapela í örbylgjuofni. Alveg sama af hvaða tegund þeir eru, mjólkin gæti hitnað misjafnlega og barnið getur þá brennt sig á henni.
  • Þrífið og sótthreinsið barnapela samkvæmt leiðbeiningum sem fylgja. Látið svo pelann kólna áður en þurrmjólkinni eða öðrum vökva er bætt út í.


3. Athugið merkingar og leiðbeiningar sem fylgja barnapelum og öðrum matarílátum


Það er góð regla að setja ílát aðeins í uppþvottavél ef þau eru merkt með „dishwasher safe“ og sama með örbylgjuofn ef þau eru merkt með „microwave safe“.


Þegar plast með BPA er hitað í örbylgju eða þvegið í þvottavél þá eykst flæði BPA úr plastinu.

Hægt er að sneiða hjá barnapelum og öðrum plastílátum með BPA með því að velja ekki vörur úr glæru plasti eða velja vörur sem eru merktar sérstaklega að þær séu án BPA.

Ítarefni




Getum við bætt efni síðunnar?