Aukið innflutningseftirlit með ákveðnum matvælum og fóðri
Reglugerð nr. 835/2010 um gildistöku reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 669/2009 um framkvæmd reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 882/2004 að því er varðar aukið, opinbert eftirlit með innflutningi á tilteknu fóðri og matvælum, sem eru ekki úr dýraríkinu.
Innflutningseftirlit hefur verið aukið á vissum tegundum af matvælum og fóðri sem eru ekki úr dýraríkinu og koma frá löndum utan evrópska efnahagssvæðinu. Um er að ræða basmati hrísgrjón, ýmsar tegundir af grænmeti og ávöxtum, hnetum og kryddi. Þetta eru matvæli sem þarf að skoða sérstaklega og þarf að rannsaka og samþykkja áður en innflutningur er leyfður. Innflytjendur þurfa að tilkynna vörur sem eru nefndar í viðauka 1. við reglugerð nr. 835/2010 með minnst sólarhringsfyrirvara á sérstöku eyðublaði Samræmt innflutningsskjal, CED (Common Entry Document).
Í innflutningseftirliti er alltaf gerð skjalaskoðun en í 10-50% tilvika er varan skoðuð og tekin sýni til rannsóknar.
Reglugerð nr. 835/2010 er byggð á Evrópureglugerð nr. 669/2009 sem styðst við reglugerð 882/2004/ESB um aukið eftirlit á matvælum og fóðri. Heimild fyrir reglugerðinni er að finna í 31 gr. laga nr. 93/1995 um matvæli og 7 gr. laga nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.
Reglugerðin tók gildi 26. október síðastliðinn. Frá þeim tíma féll úr gildi auglýsing nr. 772/2005 um takmörkun á innflutningi á sterkum eldpipar og afurðum úr honum, karríi, kúrkúma og pálmolíu. Matvælastofnun hefur óskað eftir undanþágu skv. 9 gr. í reglugerð nr. 835/2010 þannig að matvælin verði skoðuð hjá innflutningsfyrirtækjum en ekki á komustað. Innflytjandi verður að tilgreina sérstakt rými fyrir eftirllitsstað sem samþykkt er af stofnuninni.
Kostnaður vegna innflutnings
Gjald fyrir innflutningseftirlit fer skv. 4. gr. reglugerðar nr. 234/2010 um gjaldskrá fyrir eftirlit og aðra gjaldskylda starfsemi Matvælastofnunar. Eftirlitsgjald greiðist skv. tímagjaldi en einnig skal greiða akstursgjald og gjald vegna greininga á rannsóknarstofu þegar það á við.
Um er að ræða eftirfarin matvæli og fóður sem eru ekki af dýrauppruna:
- Jarðhnetur og afleiddar afurðir frá Argentínu, Brasilíu, og Víetnam.
- Jarðhnetur og afleiddar afurðir einkum hnetusmjör frá Ghana
- Krydd (chilepipar, múskat, engifer og kúrkúma) frá Indlandi
- Melónufræ og afleiddar afurðir frá Nígeríu
- Þurrkuð vínber (rúsínur) frá Úsbekistan
- Snefilefni (fóður og matvæli) frá Kína
- Chilepipar, karrí, túrmerik og pálmolíu frá 3ju ríkjum
- Basmati-hrísgrjón til beinna neyslu frá Indlandi og Pakistan
- Mangó, kínverkar langbaunir, beiskjugúrkur, kalabasakúrbítur, paprikur, eggaldin og bananar frá Dóminíska lýðveldinu.
- Ferskt , kælt, frosið grænmeti ( langbaunir, eggaldin og kál) frá Thailandi
- Grænmeti ferskt, kælt eða frosið ( piparaldin, dvergbítar og tómatar) frá Tyrklandi
- Perur frá Tyrkland
Nánari upplýsinga veitir Herdís M. Guðjónsdóttur í síma 530-4800.
Ítarefni
- Upplýsingasíða um innflutningseftirlit með matvælum sem eru ekki af dýrauppruna
- Reglugerð nr. 835/2010 um aukið opinbert eftirlit með innflutningi á tilteknu fóðri og matvælum, sem eru ekki úr dýraríkinu
- Fóður og matvæli sem eru ekki úr dýraríkinu og falla undir aukið opinbert eftirlit á komustað
- Eyðublað - Tilkynning um innflutning á eftirlitsskyldum matvælum (CED)
- Komustaðir vegna matvæla sem eru ekki úr dýraríkinu (DPE)