Fara í efni

Vegna dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Kræsinga ehf. gegn Matvælastofnun

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Þann 2. júní 2016 var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli Kræsinga ehf. gegn Matvælastofnun þar sem viðurkennd var skaðabótaskylda Matvælastofnunar vegna tilkynningar sem birt var á heimasíðu stofnunarinnar þann 27. febrúar 2013 og varðandi framleiðslu fyrirtækisins. 

Í fréttinni var þess getið að rannsókn hefði sýnt fram á að ekkert kjöt hefði fundist í nautaböku frá fyrirtækinu Gæðakokkum í Borgarnesi, en nautabakan átti skv. innihaldslýsingu að innihalda 30 % nautahakk í fyllingu og að lambahakksbollur sama framleiðenda sem sagðar voru hafa innihaldið lamba- og nautakjöt hefðu eingöngu innihaldið lambakjöt.

Þrátt fyrir að dómstólinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið hefði borið ábyrgð á því að þær nautabökur sem voru rannsakaðar hefðu ekki innihaldið nautakjöt í samræmi við innihaldslýsingu, var að mati dómstólsins enginn vafi á því að tilkynningin hefði með beinum hætti haft alvarlegar afleiðingar fyrir fyrirtækið og að fyrirtækið hefði lögvarða hagsmuni að því að fá bótaskyldu Matvælastofnunar viðurkennda.

Í forsendum dómsins er vikið að því að stofnunin hafi brostið vald til að taka ákvörðun í málinu og að hún hafi gengið inn á verksvið Heilbirgðisnefndar Vesturlands. Ætlast hefði mátt til að frekari rannsóknir yrðu framkvæmdar áður en farið hafi verið í birtingu fréttarinnar, þar sem fyrirsjáanlegt hefði verið að birtingin myndi hafa alvarlegar afleiðingar. Sömuleiðis er fundið að því að fréttin hefði ekki verið efnislega rétt, þar sem fullyrðing um að innköllun hefði verið framkvæmd hafi ekki staðist. Þá taldi dómstólinn að stofnunin hefði borið að kynna niðurstöður rannsóknanna fyrir fyrirtækinu áður en þær voru birtar opinberlega og gefa því tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum sínum.

Matvælstofnun mun nú í framhaldinu fara yfir forsendur dómsins með lögfræðingi stofnunarinnar  til að meta hvort málinu verður áfrýjað til Hæstaréttar.


Getum við bætt efni síðunnar?