Styrkur til rannsókna á smitandi hósta í hrossum
Fundur stýrihóps fulltrúa Matvælastofnunar,
Tilraunastöðvarinnar á Keldum og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis
um smitandi hósta í hrossum var haldinn 16. júní 2010. Fyrir liggur að
ríkisstjórnin hefur samþykkt að styrkja áframhaldandi rannsóknir á
orsökum veikinnar um tæpar 20 milljónir.
Farið var yfir stöðu mála varðandi útbreiðslu veikinnar og þær rannsóknir sem þegar hafa verið gerðar á henni. Ekki hefur enn verið hægt að tengja veikina þeim veirum sem þekktar eru fyrir að leggjast á öndunafæri hrossa. Aftur á móti hefur komið í ljós að bakterían Streptococcus Zooepidemicus ræktast úr öllum hrossum með hósta og graftarkenndan hor. Bakterían hefur ræktast úr hrossum hér á landi áður og er þekkt kjölfarssýking eftir veirusmit en einnig ein og sér við álag eða streitu. Frumorsök sjúkdómsins er því enn óþekkt en markmiðið með þeirri sérstöku rannsóknaráætlun sem nú verður unnið eftir er áframhaldandi leit að orsök hans og uppruna. Ennfremur að kortleggja smitdreifingu og varpa ljósi á eðli sjúkdómsins og þætti sem hafa áhrif á alvarleika hans. Þá verður unnið að sérstakri sóttvarnaráætlun. Markmið hennar er að efla varnir gegn því að smitsjúkdómar berist til landsins, gefa út sértækar leiðbeiningar um smitvarnir vegna smitandi hósta í hrossum og framkvæma úttekt á smitvörnum almennt í hrossahaldi.
Viðbragðsáætlanir verða endurskoðaðar og skerpt á tilkynningarskyldu dýralækna og hrossaeigenda. Vinnu við gerð sjúkdómaskráningarkerfis verður hraðað.
Stýrihópurinn mun hittast reglulega, fylgjast með stöðu sjúkdómsins og framgangi rannsókna.
Ítarefni