Fara í efni

Stroklaxar á Vestfjörðum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í lok ágúst síðastliðnum kom upp grunur um að eldislax væri í Mjólká í Arnarfirði. Fiskistofa hóf veiðar strax en einnig voru fengnir fiskar frá starfsmönnum Mjólkárvirkjunar sem veiðst höfðu áður. Náðust 32 laxar upp úr ánni og voru þeir sendir til Hafrannsóknarstofnunar til greiningar. Eftir DNA rannsókn sem framkvæmd var af Matís og Hafrannsóknarstofnun kom í ljós að 17 laxar af þessum 32. voru eldislaxar og hægt var að rekja þá í kví nr. 11 á eldissvæði Arnarlax á Haganesi, en gat uppgötvaðist á þeirri kví í ágúst 2021 (sjá frétt).

Í framhaldi af veiðum í Mjólká hóf Fiskistofa umfangsmikla leit að fiskum í ám frá Dýrafirði til Patreksfjarðar og notaði m.a. til þess flygildi.

Um miðjan september veiddi Fiskistofa 5 laxa í Mjólká, 4 laxa í Ósá í botni Patreksfjarðar og úr Sunndalsá í Trostansfirði komu 3 laxar frá veiðimanni. Af þessum 12 löxum reyndust 11 vera eldislaxar en einn villtur og kom hann upp úr Sunndalsá.

Alls hafa því verið veiddir 43 laxar og reyndust 28 af þeim koma úr eldi. 15 laxar voru villtir. 

Hægt var að rekja 24 þessara laxa í kví nr. 11 á eldissvæði Arnarlax við Haganes í Arnarfirði. Ekki var unnt að rekja uppruna fjögurra laxa. Tveir þeirra komu úr Mjólká og tveir úr Ósá í Patreksfirði. Verið er að skoða þessa fjóra fiska frekar og munu niðurstöður verða birtar þegar þær liggja fyrir.

Ekki hefur verið lokið við slátrun úr eldissvæðinu Haganesi þegar þetta er skrifað en slátrun verður lokið í næstu viku og mun þá Matvælastofnun geta gefið upp áætlaðan fjölda laxa sem hafa strokið.


Getum við bætt efni síðunnar?