Fara í efni

Staðfesting á skæðu afbrigði fuglaflensu

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Nú hefur verið staðfest að fuglaflensuveirur sem greinst hafa að undanförnu hér á landi eru af hinu skæða afbrigði H5N1 sem geisar í nágrannalöndum okkar um þessar mundir. Í gildi er efsta stig viðbúnaðar vegna fuglaflensu. Smithætta fyrir alifugla er mikil og brýnt að fuglaeigendur gæti ýtrustu sóttvarna. Fólk er enn hvatt til að tilkynna Matvælastofnun um dauða villta fugla sem það finnur. Um veika villta fugla skal tilkynna til viðkomandi sveitarfélags.

Tilvísunarrannsóknarstofa OIE, FLI í Þýskalandi, hefur haft veirur úr hænum á Skeiðum og heiðagæs í Hornafirði til nánari rannsóknar og svar barst frá henni í dag sem staðfesti að um væri að ræða sama alvarlega meinvirka afbrigði fuglaflensuveirunnar H5N1 sem geisað hefur í Evrópu undanfarna mánuði. Að öllum líkindum eru þær veirur sem hafa greinst í öðrum fuglum hér á landi af sömu gerð, þar sem þetta er það afbrigði sem langmest er um í Evrópu um þessar mundir.

Þegar fuglaflensan greindist í heimilishænum hækkaði Matvælastofnun viðbúnaðarstig vegna sjúkdómsins í efsta stig, þar sem stofnunin taldi allar líkur á að um hið skæða afbrigði væri að ræða. Þessi niðurstaða rannsókna FLI staðfestir því það mat og rennir stoðum undir að rétt hafi verið að virkja viðbragðsáætlun stofnunarinnar.

Smithætta fyrir alifugla og aðra fugla í haldi er mikil og Matvælastofnun brýnir enn og aftur fyrir fuglaeigendum að framfylgja þeim reglum sem í gildi eru, sbr. auglýsingu um tímabundnar varnaraðgerðir sem sett var af ráðherra 25. mars sl.. Samkvæmt 2. gr. auglýsingarinnar er öllum þeim sem halda alifugla og aðra fugla skylt að fylgja eftirfarandi reglum:

 1. Fuglahús og umhverfi þeirra.
  1. Fuglar skulu hafðir inni í yfirbyggðum gerðum eða húsum.
  2. Tryggja skal góðan aðskilnað milli alifugla og villtra fugla.
  3. Hús og gerði skulu fuglaheld.
  4. Tryggja skal að ekkert í umhverfi fuglahúsanna laði að villta fugla.
  5. Setja skal hatta á allar lóðréttar loftræstitúður á fuglahúsum, nema þar sem um er að ræða útblástur vélrænnar loftræstingar.
  6. Setja skal fuglanet fyrir allar loftræstitúður, op og glugga á fuglahúsum.
 2. Umgengni og umhirða.
  1. Öllum óviðkomandi skal bannaður aðgangur að fuglahúsum.
  2. Allir sem sinna fuglunum skulu nota hlífðarfatnað (galla og stígvél), sem eingöngu er notaður þar, og skulu þeir einnig þvo og sótthreinsa hendur fyrir og eftir umhirðu fuglanna.
 3. Fóður og drykkjarvatn.
  1. Fóður og drykkjarvatn fuglanna má ekki vera aðgengilegt villtum fuglum.
  2. Drykkjarvatnsból skulu vel frágengin þannig að ekki berist í þau yfirborðsvatn og fugla­drit.
 4. Flutningar.
  1. Sýningarhald og aðrar samkomur með fugla er bannað.
  2. Ekki skal flytja fugla milli staða nema vitað sé að heilsufar fugla á báðum stöðum sé gott.
  3. Skrá skal alla flutninga á fuglum, hvenær flutningarnir fóru fram og hvert og hvaðan þeir voru fluttir. Skráin skal vera aðgengileg Matvælastofnun ef hún óskar eftir henni.
 5. Úrgangur.
  1. Farga skal öllum úrgangi úr fuglahúsum þannig að ekki stafi smithætta af honum fyrir alifugla og aðra fugla í haldi.

Matvælastofnun vill ítreka að mjög mikilvægt er að fólk tilkynni um dauða villta fugla og þakkar fyrir þær fjölmörgu tilkynningar sem berast. Þessar tilkynningar skipta máli við mat á útbreiðslu og tíðni. Best er að tilkynna með því að skrá ábendingu á heimasíðu stofnunarinnar. Þegar tilkynning berst metur stofnunin hvort taka skuli sýni úr fuglinum.

Ef vart verður við veika villta fugla skal tilkynna um það strax til viðkomandi sveitarfélags, sem er skylt að sjá til þess að fuglinum sé komið til hjálpar eða hann aflífaður á mannúðlegan hátt, samkvæmt lögum um velferð dýra. Fyrir utan opnunartíma sveitarfélaga er hægt að hafa samband við lögreglu.

Fram til þessa hafa fuglaflensuveirur greinst í sýnum úr 18 villtum fuglum af sjö tegundum (grágæs, haferni, heiðagæs, hrafni, súlu, svartbaki og helsingja). Nánari upplýsingar um greiningarnar er að finna á kortasjá MAST.

Ítarefni

Upplýsingasíða MAST um fuglaflensu


Getum við bætt efni síðunnar?