Fara í efni

Smitandi hósti í hrossum – stöðumat 1. Júní

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Dýralækni hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun var tilkynnt um smitandi hósta í hrossum á Hólum í Hjaltadal og tveim nágrannabæjum hinn 7. apríl sl. Þeirri tilkynningu fylgdu upplýsingar um að veikindin hefðu varað í um þrjár vikur og hugsanlega lengur. Öruggustu tilfellin voru hestar sem komu til Hóla nokkru fyrir páska (um miðjan mars) og var veikin mjög greinilega að breiðast út frá þeim. Við athugun kom í ljós að veikin var á sama tíma komin á margar stórar tamningastöðvar á Suðurlandi, í  a.m.k. eitt hesthús í Reykjavík (smitið barst með hesti sem kom í húsið 7. mars) og annað í Keflavík. Allar þessar tamningastöðvar, þ.m.t.  Hólar, höfðu tengsl við tiltekna þjálfunarmiðstöð og höfðu tekið við hestum þaðan fyrir eða um páska. Á þeirri þjálfunarmiðstöð var ekki að hafa nákvæmar upplýsingar um hvenær fyrst hafði orðið vart við hesta með einkenni veikinnar né hvernig hún hefði hugsanlega borist þangað. Innan viku fréttist af hrossum með einkenni veikinnar í Borgarfirði og á Egilsstöðum.


Varlega áætlað hafði smitið verið í gangi í 4 - 6 vikur þegar tilkynnt var um veikina, hugsanlega miklu lengur. Á þeim tíma hafði fjöldinn allur af hrossum verðið fluttur til og frá þessum tamningastöðvum og tekið þátt í sýningum og keppnum víðsvegar um landið. Það var því ljóst frá byrjun að útbreiðsla veikinnar yrði ekki stöðvuð.

Í því ljósi  var ákveðið  að virkja ekki þá viðbragðsáætlun sem til er fyrir alvarlega smitsjúkdóma í hrossum. Ljóst var frá upphafi að  hún myndi skila takmörkuðum árangri þar sem smitdreifingin var þegar orðin mjög mikil. Einnig var talið að ekki væri um alvarlegan sjúkdóm væri að ræða þar sem fyrstu einkenni hans eru ævinlega mjög væg. Þó komið hafi í ljós að einkennin geti orðið alvarlegri og umfram allt varað mun lengur veik en ætlað var í byrjun, hefur það mat ekki breyst.


Sjúmdómseinkenni  
Greinilegasta einkennið er þurr hósti sem menn verða oft fyrst varir við í reið. Samtímis eða nokkru fyrr má í sumum tilfellum greina glært nefrennsli og slappleika. Þegar frá líður fá mörg hrossanna mikinn, graftarkenndan hor og hósta þá gjarnan meira og frísa. Þau sem fara verst út úr sýkingunni fá hita og draga úr áti. Dæmi eru um hross, einkum ungviði, sem lagt hafa verulega af. Við nánari skoðun með speglun komu í ljós vægar slímhúðarbreitingar í efri hluta öndunarvegar þ.e. nefholi, koki, og barka (Helgi Sigurðsson og Vilhjálmur Svansson 6. maí 2010).  Einkennin vara alla jafna í 2 – 6 vikur og lengur í einhverjum tilfellum. Þá virðist nokkuð um að hrossum slái niður.

Faraldsfræði

Misjafnt er hversu langur  tími líður frá því smit berst í hesthús þar til hestarnir fara að hósta, oftast þó um 2 – 4 vikur. Hross sem koma inn í mikið sýkt umhverfi fá einkenni eftir 1-2 vikur. Sjúkdómsferillinn virðist  býsna líkur milli hesthúsa og er einkennandi að aðeins fáir hestar veikjast í byrjun og yfirleitt vægilega. Þá er eins og smitið magnist upp og um tveimur til þremur vikum síðar eru margir ef ekki allir hestarnir í húsinu farnir að hósta og jafnvel komnir með graftarkennt nefrennsli. Má ganga að því vísu að allir hestar sem á annað borð eru í smituðu umhverfi veikist þó einkennin geti verið misjafnlega mikil. Bendir það til að allur hrossastofninn sé næmur fyrir sýkingunni og því er líklega um nýtt smitefni að ræða hér á landi. Ekki liggur fyrir hversu lengi hross smita út frá sér eða hversu langur tími líður frá því veikin gengur yfir í hesthúsi þar til það verður smitfrítt. Meðfylgjandi mynd sýnir feril sjúkdómsins eins og hann kom fyrir í fyrstu hesthúsunum sem veikin greindist í. 

Algengasta og greinilegasta smitleiðin er með smituðum eða veikum hrossum sem flutt eru milli húsa. Einnig berst hún með reiðverum og menn geta auðveldlega borið hann milli hesta ef  smitvarna er ekki gætt. Veikin berst einnig í útigangshross bæði með framangreindum aðferðum auk þess sem sterkar vísbendingar eru  um loftborið smit. Alla jafna fá útigangshross fremur væg sjúkdómseinkenni en alvarlegri einkenni geta komið upp þeirra á meðal líka.

Fullvíst má telja að smitið hafi verið komið á kreik í febrúar og kannski fyrr. Í byrjun apríl voru a.m.k. 15 - 20 tamningastöðvar staddar í þriðju viku þess sjúkdómsferils sem sýndur er á meðfylgjandi mynd og fleiri á leiðinni. Smitið virðist hafa breiðst hratt út en þar sem meðgöngutíminn er langur og við hann bætist sá tími sem kjölfarssýkingar eru að magnast upp, geta liðið allt að 4-5 vikur frá smiti þar til veikindin koma upp á yfirborðið.  Ætla má að meirihluti reiðhesta á þéttbýlli stöðum landsins hafi verið búinn að taka smitið um mánaðarmótin apríl – maí og þá hafi faraldurinn sem slíkur náð hámarki. Eftirköst þess eru enn að koma í ljós. Mikið hefur borið á einkennum veikinnar allan maímánuð og líklegt er að svo verði áfram, eitthvað áfram fram á sumarið.  Á flestum þeim tamningastöðvum og bæjum sem fengu veikina um eða uppúr páskum eru mörg hrossanna þó komin í fulla þjálfun aftur og hafa náð fyrra þreki. Það bendir eindregið til þess að þau nái fullum bata þó það geti tekið langan tíma.

Greiningar

Sýni voru tekin strax og tilkynningin barst, bæði blóðsýni (parað sermi, tvö sýni með 10 daga millibili) og stroksýni úr nefi og þau send til greiningar á Keldum og Dýralækningastofnun Svíþjóðar. Auk þess hafa sýni verið send veirudeildar Justus-Liebig-háskólans í Giessen Þýskalandi.  Veirurannsóknir hafa hingað til ekki skilað árangri.

Prófað hefur verið fyrir öllum veirum sem vitað er til að leggist á öndunarfæri hrossa og hafa niðurstöður þeirra rannsókna allar verið neikvæðar. Þannig er búið að útiloka hestainflúensu (og raunar allar þekktar gerðir inflúensu), smitandi háls og lungnakvef/fósturlát/heilabólgu (hesta herpes týpa 1,EHV-1), smitandi æðabólgu (EAV), rhinoveirur 1, 2 og  3, hesta herpes týpurnar 4, 2 eða 5, reo veirur, parainflúensu og adenoveiru 1.

Enn er þó unnið að veirurannsóknum á þeim grundvelli að  um sé að ræða óþekkta veiru í hrossum sem engin próf eru til fyrir og er verið að reyna að rækta veiruna. Út frá faraldsfræðinni og klínískum einkennum sem að framan eru rakin er talið líklegt að veirusýking sé frumorsökin og að hún veiki slímhúðina og opni fyrir öðrum sýkingum.

Bakteríuræktun hefur leitt í ljós að mikið er um sýkingar með Streptococcus Zooepidemicus sem er þekkt fyrir að koma í kjölfar veirusýkinga og má telja líklegt að hún sé að valda hinum alvarlegri einkennum veikinnar. Streptokokkar hafa ræktast úr svo gott sem öllum hestum sem hósta og öllum þeim sem eru með graftarkenndan hor en ekki úr þeim sem aðeins eru með glært hor og ekki úr einkennalausum hrossum. Bersýnilega hefur komið í ljós að bakterían smitast milli hesta með snertingu innan hesthúsa (Eggert Gunnarsson og Vilhjálmur Svansson 18.maí). Ekki er vitað hvort smitið getur borist með öðrum hætti en umhverfisaðstæður virðast hafa mikið að segja um hversu miklar og þrálatar þessar sýkingar verða. Nú er unnið að stofngreiningum á bakteríunni, m.a. til að kanna hvort um nýjan stofn í landinu geti verið að ræða.

Bakterían Streptococcus equi sem veldur hinni illvígu kverkeitlabólgu hefur hins vegar ekki greinst enda benda einkennin ekki til að um svo alvarlegan sjúkdóm sé að ræða.
 
Hvað er til ráða ?

Miklvægt er að fyrirbyggja að bakteríusmitið magnist upp í umhverfi hrossa og létta á smitálaginu eins og frekast er unnt. S. Zooepidemicus virðist magnast upp í hesthúsum og því er áríðandi að hafa hrossin eins mikið úti og í eins hreinu umhverfi og hægt er. Með því móti verður veikin alla jafna vægari en sjúkdómsferillinn því miður ekki endilega styttri. Hafa ber í huga að hross sem þegar hafa smitast alvarlega af bakteríunni þurfa ganga í gegnum sýkinguna hvort sem þau eru úti eða inni en minna smitálag minnkar líkurnar á að þeim slái niður.  Hreinsa skal hesthús og sótthreinsa samkvæmt leiðbeiningum sem er að finna í ítarefninu hér að neðan.

Nauðsynlegt er að hvíla hesta um leið og vart verður við fyrstu einkenni sjúkdómsins. Það er hins vegar gott að þeir hreyfi sig á eigin forsendum úti og ef einkennin eru væg er óhætt að teyma þá aðeins en ekki svita. Þegar hestar eru orðnir einkennalausir og frísklegir að sjá er óhætt að prófa þá í rólegheitum. Ef knapar verða varir við slappleika eða hósta (umfram smá hreinsanir) verða menn að hvíla hestana lengur.

Auka þarf eftirlit með öllum hrossum. Hryssur komnar að köstun og nýkastaðar mega ekki við miklum skakkföllum og ungviðið, folöld og veturgömul trippi eru í áhættuhópi. Sérstaka gát þarf því að hafa á stóðhestagirðingum í sumar. Fylgjast þarf vel með heilsu hrossa sem sleppt hefur verið á beit með einkenni veikinnar. Mikilvægt er að hestar séu ekki notaðir til reiðar nema þeir séu frískir. Sérstaklega þarf að huga vel að heilbrigði ferðahesta, sýninga- og keppnishesta.


Ítarefni
Getum við bætt efni síðunnar?