Fara í efni

Riðuaðgerðir leiða til uppgötvunar fornleifa frá landnámsöld

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Fornt og áður óþekkt bæjarstæði hefur uppgötvast vegna riðuhreinsunar Matvælastofnunar á bænum Grófargili í nágrenni Varmahlíðar. Þar fannst öskuhaugur og í honum hnífsblað, hnífsskaft, ýmsir járngripir, dýrabein, snældusnúður og grjót í eldstæði. Fornminjarnar eru frá því vel fyrir árið 980 af gjóskulögum að dæma.

Gjóskulög ofan fornminja á Grófargili
Þversnið skurðar sýnir gjóskulag frá 1104 (hvítt), frá 980 og mannvistalag öskuhaugsins þar fyrir neðan

Riða greindist á Grófargili fyrr á þessu ári. Allt fé var sent í brennslu og annað sem talið var geta borið smit grafið á staðnum. Sá staður sem Matvælastofnun taldi heppilegastan fyrir riðugröf var nærri gömlum húsarústum sem vitnað var í í örnefnaskrá. Ofan á rústunum stóð nautakofi sem þurfti að rífa og setja í riðugröf. Stofnunin hafði því samband við Minjastofnun sem fór fram á að fornleifafræðingur fylgdist með aðgerðum. Nautakofinn var rifinn án þess að raska rústunum.

Öskuhaugur í könnunarskurði
Í könnunarskurði sást í lagið úr öskuhaugnum 

Við gröft riðugrafar var fyrst gerður könnunarskurður í varúðarskyni sem leiddi í ljós mun eldri fornminjar, fornan öskuhaug. Aðgerðir voru stöðvaðar og fyrirhuguð riðugröf færð til. Við tók fornleifauppgröftur þar sem fornleifafræðingurinn fann fjölda muna, dýrabein og eldsprungna steina. Aðgerðum er lokið og verða fornleifarnar færðar til Þjóðminjasafnsins að lokinni skýrslugerð fornleifafræðings. 

Hnífsblað og snældusnúður
Hnífsblað og brot úr snældusnúð


Getum við bætt efni síðunnar?