Fara í efni

Ný rannsókn á öryggi erfðabreytts maís

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Franskir vísindamenn birtu í vikunni niðurstöður rannsókna á rottum, sem gefin var erfðabreyttur maís sem er þolinn gegn illgresiseyði (Roundup). Tilgangur rannsóknarinnar var að meta heilsufarsleg áhrif langtímaneyslu á tilraunadýrin. Þetta afbrigði af maís hafði verið viðurkennt til notkunar sem fóður af kanadískum yfirvöldum, en maís með þol gegn illgresiseyðinum hefur einnig verið viðurkenndur til notkunar sem fóður og matvæli eða sem efnisþáttur í slíkum vörum í Bandaríkjunum, Evrópu og víðar.  

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna neikvæð heilsufarsleg áhrif á tilraunadýr og er Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) nú að fara yfir framkvæmd rannsóknarinnar og niðurstöður hennar. Á þeim grunni verður unnt að meta hvort tilefni er til endurskoðunar á áhættumati sem liggur til grundvallar leyfisveitingum í Evrópu. EFSA hefur það hlutverk að gera áhættumat og koma með álit áður en leyfi er veitt til sleppingar og markaðssetningar á erfðabreyttum lífverum og afurðum þeirra, þ.m.t. fóðurs og matvæla. 

Matvælastofnun er tengiliður Íslands við EFSA og mun stofnunin fylgjast með þróun mála þar og hjá samstarfsstofnunum á Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Yfirlýsing EFSA vegna málsins má finna hér

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?