Fara í efni

Niðurstöður mælinga á nítríti og nítrati í kjötvörum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun lét nýverið mæla nítrít og nítrat í unnum kjötvörum sem framleiddar eru hérlendis. Tvær kjötvörur af 21 reyndust innihalda meira magn en leyfilegt er.

Eftirlitsmenn Matvælastofnunar tóku 21 sýni af kjötvörum hjá framleiðendum sem eru undir eftirliti stofnunarinnar. Einblínt var á vörur þar sem notkun efnanna var tilgreind eða líkleg. Sýnatökur stóðu yfir frá 24. nóvember til 4. desember 2015.

Niðurstöður mælinga sýndu að í tvær vörur var notað of mikið af öðru eða báðum efnunum. Sýnin tvö voru úr saltkjöti og ítölsku salami.

Í kjölfar mælinganna var farið í eftirlit á viðkomandi starfsstöðvar og farið yfir uppskriftir og verkferla. Brugðist hefur verið við kröfum stofnunarinnar og úrbætur gerðar. Þrátt fyrir að gildi hafi mælst marktækt yfir leyfilegum hámarksgildum í tveimur varanna þá er magnið ekki það mikið að hætta hafi stafað af vegna neyslu þeirra.  Áfram verður fylgst með notkun efnanna í eftirliti stofnunarinnar.

Nítrít og nítrat eru aukefni sem leyfilegt er að nota í ýmsar kjötvörur. Þau eru skilgreind sem rotvarnarefni en einnig notuð í kjötvörur til að varðveita lit og gefa ákveðna bragðeiginleika. Leyfilegt hámarksmagn í matvælum er skilgreint í reglugerð um aukefni og miðast við að heimila nægilegt magn efnanna til að hefta örveruvöxt í matvælum án þess að þau geti valdið skaðlegum áhrifum. 

Nánari upplýsingar er að finna í skýrslu sem Matvælastofnun hefur birt um mælingarnar.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?