Námskeið um merkingu matvæla
Matvælastofnun mun halda námskeið fyrir matvælaframleiðendur um merkingu matvæla á næstu vikum. Á námskeiðunum verður fjallað almennt um hvernig merkja á matvæli. Áhersla verður lögð á innihaldslýsingar, magnmerkingar, upprunamerkingar og auðkennismerki. Einnig verður fjallað um næringargildismerkingar og næringar- og heilsufullyrðingar, með sérstakri áherslu á heilsufullyrðingar.
Í eftirlitsverkefni Matvælastofnunar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga frá árinu 2011 um innihaldslýsingar matvæla og uppskriftir þeirra kom í ljós að í 16% tilfella komu ekki öll innihaldsefni uppskriftar fram í innihaldslýsingu á umbúðum. Þá voru nýlega birtar niðurstöður norræns eftirlitsverkefnis um merkingar matvæla í Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi á tímabilinu 2010 til 2012. Þær sýna að fimmta hver vara var ekki rétt merkt og að innihaldið passaði ekki við innihaldslýsingu í 9% tilfella. Jafnframt sýnir ný úttekt Matvælastofnunar á 16 matvörum í verslunum að engin þeirra uppfyllti allar kröfur um merkingar.
Matvælafyrirtæki bera ábyrgð á eigin framleiðslu og upplýsingagjöf til neytenda. Rétt merking matvæla er mikið hagsmunamál fyrir neytendur og geta rangar merkingar m.a. verið varasamar þeim sem eru með matarofnæmi eða óþol.
Námskeiðin 3 verða haldin á eftirfarandi stöðum og tímum:
- Miðvikudaginn 13. mars kl. 14-17 í fundarsal Samtaka atvinnulífsins á efstu hæð, Borgartúni 35, 105 Reykjavík
- Þriðjudaginn 19. mars kl. 13-16 í fundarsal Inn- og útflutningsskrifstofu Matvælastofnunar, Stórhöfða 23, 110 Reykjavík
- Miðvikudaginn 20. mars kl. 13-16 í Alþýðuhúsinu (4.h.), Skipagötu 14 á Akureyri