Fara í efni

Mikil útbreiðsla fuglaflensu

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Að undanförnu hefur fuglaflensa farið eins og eldur um sinu í Evrópu. Matvælastofnun fylgist stöðugt með þróun faraldursins og metur áhættu fyrir Ísland. Stofnunin hvetur fuglaeigendur að huga ávallt vel að smitvörnum og búa sig undir þann möguleika að fyrirskipaðar verði sérstakar smitvarnaráðstafanir.

Flest fuglaflensutilfelli sem greinst hafa í Evrópu síðustu mánuði eru vegna skæðrar fuglaflensuveiru af gerðinni H5N8. Afbrigðið hefur greinst bæði í villtum fuglum og fuglum í haldi. Villtir fuglar virðast hafa mesta þýðingu fyrir útbreiðslu veirunnar.

Matvælastofnun álítur ekki þörf fyrir aukinn viðbúnað hér á landi enn sem komið er en um leið og farfuglarnir fara að skila sér aftur til landsins er hugsanlegt að það breytist. Stofnunin vill því minna fuglaeigendur á að gera ráðstafanir til að verja fugla sína fyrir smiti frá villtum fuglum með því að viðhafa ávallt góðar almennar smitvarnir, forðast að hafa nokkuð í umhverfi fuglahúsa sem laðar að villta fugla, gæta þess að fóður og drykkjarvatn sé ekki aðgengilegt villtum fuglum og halda fuglahúsum vel við. Fuglaeigendur eru líka beðnir um að vera vakandi og hafa samband við Matvælastofnun ef þeir verða varir við sjúkdómseinkenni eða aukin dauðsföll.

Almenningur er beðinn um að tilkynna Matvælastofnun ef villtir fuglar finnast dauðir og orsök dauða þeirra er ekki augljós. Það má gera með því að senda ábendingu eða tölvupóst á mast@mast.is eða hringja í 530-4800 á opnunartíma.

Matvælastofnun hefur skilgreint þrjú viðbúnaðarstig vegna fuglaflensu. Viðbúnaðarstig 1 er alltaf í gildi en ef líkur aukast á að skæð fuglaflensa berist til landsins tekur viðbúnaðarstig 2 gildi. Þá mun Matvælastofnun leggja til við ráðherra að fyrirskipa tímabundnar aðgerðir til að hindra að flensan berist í alifugla og aðra fugla í haldi. Komi upp grunur um skæða fuglaflensu eða hún staðfest, færast viðbrögð yfir á stig 3. Nánari upplýsingar um viðbúnaðarstigin er að finna hér fyrir neðan.

Mikilvægt er að hafa í huga að fólk getur líka smitast af fuglaflensu. Við handfjötlun dauðra fugla er því nauðsynlegt að gæta smitvarna, að minnsta kosti nota grímur og hanska. Þegar um er að ræða smit í hópi fugla þurfa þeir sem vinna að aðgerðum að klæðast fullkomnum hlífðarbúnaði. Það skal þó tekið fram að það afbrigði sem nú geisar í Evrópu hefur hingað til ekki valdið sýkingum í fólki. Engar vísbendingar eru um að fólk geti smitast af neyslu eggja og kjöts.

Svínabændur sem eru líka með alifugla þurfa að gæta sérstaklega vel að smitvörnum því svín geta líka smitast af fuglaflensu.

Nánari upplýsingar um viðbúnaðarstig:

Fuglaflensa viðbúnaðarstig 1

Viðbúnaðarstig 1
Lítil hætta

Þetta viðbúnaðarstig er alltaf í gildi.

Tilkynningar

  1. Tilkynna skal til Matvælastofnunar um dauða villta fugla, þegar orsök dauða er ekki augljós, svo sem flug á rafmagnslínur, á rúður eða fyrir bíla.
  2. Aukin dauðsföll eða grunsamleg veikindi í alifuglum og öðrum fuglum í haldi skal tilkynna til Matvælastofnunar. 
    Leiðbeinandi viðmið:
    - Minnkun á fóðurnotkun og vatnsnotkun um meira en 20%.
    - Minnkun á varpi um meira en 5% á tveimur dögum.
    - Afföll meiri en 3% á einni viku.
    - Sjúkdómseinkenni, s.s. bólginn haus, öndunarerfiðleikar, niðurgangur og blæðingar í húð á fótum.

Lágmarks smitvarnir fyrir alifugla og aðra fugla í haldi

  1. Forðast skal að hafa nokkuð í umhverfi fuglahúsa sem laðar að villta fugla.
  2. Fóður og drykkjarvatn skal ekki aðgengilegt villtum fuglum.
  3. Fuglahúsum skal vel við haldið.
  4. Almennar góðar smitvarnir skulu viðhafðar.

Fuglaflensa viðbúnaðarstig 2

Viðbúnaðarstig 2
Miðlungs hætta

Þegar auknar líkur eru á að skæð fuglaflensa berist með farfuglum til landsins, samkvæmt mati sérfræðinga, leggur Matvælastofnun til við ráðherra að fyrirskipaðar verði tímabundnar varnaraðgerðir til að fyrirbyggja að fuglaflensa berist í alifugla og aðra fugla í haldi. Jafnframt leggur stofnunin fram tillögur að auknu eftirliti og sýnatökum.

Tilkynningar

  1. Tilkynna skal til Matvælastofnunar um dauða villta fugla, þegar orsök dauða er ekki augljós, svo sem flug á rafmagnslínur, á rúður eða fyrir bíla.
  2. Aukin dauðsföll eða grunsamleg veikindi í alifuglum og öðrum fuglum í haldi skal tilkynna til Matvælastofnunar. 
    Leiðbeinandi viðmið: 
    - Minnkun á fóðurnotkun og vatnsnotkun um meira en 20%. 
    - Minnkun á varpi um meira en 5% á tveimur dögum. 
    - Afföll meiri en 3% á einni viku. 
    - Sjúkdómseinkenni, s.s. bólginn haus, öndunarerfiðleikar, niðurgangur og blæðingar í húð á fótum.

Lágmarks smitvarnir fyrir alifugla og aðra fugla í haldi

  1. Fuglarnir skulu hafðir inni í yfirbyggðum gerðum eða húsum.
  2. Tryggja skal góðan aðskilnað milli alifugla og villtra fugla. Hús og gerði skulu vera fuglaheld.
  3. Tryggja skal að ekkert í umhverfi fuglahúsanna laði að villta fugla.
  4. Fóður og drykkjarvatn fuglanna skal ekki vera aðgengilegt villtum fuglum.
  5. Endur og gæsir skulu aðskildar frá hænsnfuglum.
  6. Setja skal hatta á allar lóðréttar loftræstitúður og fuglanet fyrir allar  loftræstitúður, op og glugga á fuglahúsum.
  7. Öllum óviðkomandi skal bannaður aðgangur að fuglahúsum.
  8. Allir sem sinna fuglunum skulu nota hlífðarfatnað (galla og stígvél), sem eingöngu er notaður þar, og skulu þeir einnig þvo og sótthreinsa hendur fyrir og eftir umhirðu fuglanna.
  9. Áður en fuglar eru fengnir frá öðrum búum skal spyrjast fyrir um hvort heilsufar fugla á búinu hafi verið eðlilegt. Fuglar skulu ekki teknir inn á bú frá búum þar sem sjúkdómsstaða er óþekkt eða eitthvað virðist vera athugavert við heilsufar.
  10. Mælt er með „allt inn – allt út“ kerfi, þ.e.a.s. að allir fuglar séu fjarlægðir af búi áður en nýir eru teknir inn.
  11. Hús og gerði skulu þrifin vel og sótthreinsuð á milli hópa.
  12. Farga skal dauðum fuglum, undirburði og skít á öruggan hátt.
  13. Tryggja skal góðar smitvarnir við vatnsból.
  14. Sýningarhald og aðrar samkomur með fugla er bannað.

Fuglaflensa viðbúnaðarstig 3

Viðbúnaðarstig 3
Mikil hætta

Þegar um er að ræða grun eða greiningu á fuglaflensu í alifuglum eða öðrum fuglum í haldi, eða að skæð fuglaflensa greinist í villtum fuglum, er viðbragðsáætlun Matvælastofnunar vegna alvarlegra dýrasjúkdóma virkjuð. Hana má finna í gæðahandbók sem aðgengileg er á vef stofnunarinnar.

Matvælastofnun leggur fram tillögu að fyrirskipun um niðurskurð og auknar varnaraðgerðir fyrir ráðherra.

Áfram gilda reglur um lágmarks viðbúnað sem tilgreindar er undir viðbúnaðarstigi 2, en strangari kröfur geta komið til viðbótar eftir aðstæðum.

Helstu viðbrögð við greiningu á fuglaflensu, bæði vægu og skæðu afbrigði, í alifuglum eða öðrum fuglum í haldi, eru m.a.:

  1. Allir alifuglar og aðrir fuglar í haldi á smituðu búi eru aflífaðir á mannúðlegan hátt, hvort sem þeir eru smitaðir með skæðu eða vægu afbrigði af fuglaflensuveiru.
  2. Hræjum, úrgangi og búnaði sem ekki er hægt að sótthreinsa, er fargað á tryggilegan hátt.
  3. Smit er rakið og áhættubú og bann-, verndar- og eftirlitssvæði eru skilgreind.
  4. Vöktun og takmarkanir á áhættubúum og svæðum eru auknar.
  5. Einangrun fugla er fyrirskipuð.
  6. Vöktun á flutningi alifugla og mögulega smituðum bifreiðum og fólki er aukin.
  7. Nákvæm þrif og sótthreinsun á smituðu búi eru fyrirskipuð.
  8. Minnst 21 dagur þarf að líða áður en nýir fuglar eru settir inn á búið.

Helstu viðbrögð við greiningu á skæðu afbrigði af fuglaflensu í villtum fuglum, eru m.a.:

  1. Skilgreind eru verndar- og eftirlitssvæði út frá þeim stað sem fuglaflensa greinist.
  2. Alifuglar og aðrir fuglar í haldi á skilgreindum svæðum skulu haldnir innandyra.
  3. Vöktun og takmarkanir á áhættubúum og svæðum eru auknar.
  4. Vöktun m.t.t. fuglaflensu í villtum fuglum er aukin.
  5. Takmarkanir á flutningi alifugla og annarra fugla í haldi eru fyrirskipaðar.

Getum við bætt efni síðunnar?