Fara í efni

Kórónaveiran og framleiðsla grænmetis og dýraafurða

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun hefur uppfært upplýsingasíðu sína um COVID-19 og matvæli með algengum spurningum og svörum um uppskeru grænmetis og framleiðslu dýraafurða m.t.t. kórónaveirunnar:

Uppskera grænmetis

Má fólk með kórónaveirusmit eða í sóttkví vinna við uppskeru grænmetis?

Fólk sem hefur verið greint með veiruna sem veldur COVID-19 sjúkdómi, má ekki vinna við uppskeru grænmetis. Samkvæmt reglugerð um hollustuhætti er varða matvæli skulu stjórnendur matvælafyrirtækja gera fullnægjandi ráðstafanir til að tryggja að starfsfólk, sem meðhöndlar matvæli, sé heilbrigt. 

Fólk sem hefur verið úrskurðað í sóttkví vegna hugsanlegs smits af völdum kórónaveiru og er einkennalaust, má vinna við uppskeru grænmetis séu ekki aðrir þar að störfum líka. Sjá leiðbeiningar um sóttkví á vef embættis landlæknis. Tíður handþvottur með sápuvatni er besta smitvörnin. 

Framleiðsla dýraafurða

Má fólk með kórónaveirusmit eða í sóttkví vinna við tínslu og pökkun eggja?

Fólk sem hefur verið greint með veiruna sem veldur COVID-19 sjúkdómi, má ekki vinna við tínslu og pökkun eggja. Samkvæmt reglugerð um hollustuhætti er varða matvæli nr. 103/2010 (EB/2004/852) skulu stjórnendur matvælafyrirtækja gera fullnægjandi ráðstafanir til að tryggja að starfsfólk, sem meðhöndlar matvæli, sé heilbrigt. 

Fólk sem hefur verið úrskurðað í sóttkví vegna hugsanlegs smits af völdum kórónaveiru og er einkennalaust má vinna við tínslu og pökkun eggja séu ekki aðrir þar að störfum líka. Sjá leiðbeiningar um sóttkví á vef embættis landlæknis. Tíður handþvottur með sápuvatni er besta smitvörnin. 

Má fólk með kórónaveirusmit eða í sóttkví vinna við mjaltir og önnur fjósastörf?

Einstaklingar sem hafa greinst með veiruna sem veldur COVID-19 sjúkdómi, er skylt að fylgja reglum um heimaeinangrun á vef embættis landlæknis. Kúabændur sem hafa smitast, ættu að leita allra leiða til að fá afleysingu í mjaltir og önnur verk í fjósi. Bæði vegna þeirrar eigin heilsu, að þeir keyri sig ekki út og tefji fyrir bata, og að þeir dreifi ekki smiti í fjósinu þar sem annað fólk gæti átt eftir að starfa, ef þeir sjálfir verða alvarlega veikir. Ef óhjákvæmilegt er að sýktur einstaklingur starfi við mjaltir þarf hann að gæta ýtrustu smitvarna. Tíður handþvottur er mikilvægasta smitvörnin en einnig er æskilegt að nota hanska og grímu við mjaltir og þrif á mjaltatækjum og í mjólkurhúsi. Æskilegt er að opna út og loftræsta mjólkurhúsið að loknum mjöltum. 

Kúabændur sem hafa verið úrskurðaðir í sóttkví vegna hugsanlegs smits af völdum kórónaveiru og eru einkennalausir ættu að fylgja leiðbeiningum um sóttkví á vef embættis landlæknis og er ráðlagt að gæta ýtrustu smitvarna í störfum sínum við mjaltir. Tíður handþvottur með sápuvatni er besta smitvörnin. 

Sjá einnig leiðbeiningar fyrir atvinnulíf á vef embættis landlæknis.

Má sækja mjólk á bæi þar sem fólk er í heimaeinangrun eða sóttkví vegna kórónaveiru?

Einstaklingum sem hafa greinst með veiruna sem veldur COVID-19 sjúkdómi, er skylt að fylgja leiðbeiningum um heimaeinangrun á vef embættis landlæknis og þeir sem úrskurðaðir hafa verið í sóttkví skulu fylgja leiðbeiningum um sóttkví á vef embættis landlæknis. Mælt er með að kúabændur sem hafa smitast leiti allra leiða til að fá afleysingu. Ef óhjákvæmilegt er að sýktur einstaklingur starfi við mjaltir þarf hann að gæta ýtrustu smitvarna og má ekki vera til staðar þegar mjólkin er sótt. Sama gildir um einstakling í sóttkví. Mjólkurbílstjóri þarf jafnframt að gæta ýtrustu smitvarna s.s. að nota vinnuhanska sem hann skilur eftir á búinu meðan ástandið varir og þvo hendur með sápuvatni (eða handspritti) áður en hann yfirgefur búið.  

Má fólk með kórónaveirusmit eða í sóttkví sinna sauðfé, nautgripum, svínum, alifuglum og hrossum?

Einstaklingum sem hafa greinst með veiruna sem veldur COVID-19 sjúkdómi, er skylt að fylgja leiðbeiningum um heimaeinangrun á vef embættis landlæknis. Fólk á  sauðfjárbúum, nautgripabúum, svínabúum, alifuglabúum og hrossabúum sem hefur smitast ætti að leita allra leiða til að fá afleysingu. Bæði vegna þeirrar eigin heilsu, að þeir keyri sig ekki út og tefji fyrir bata, og að þeir dreifi ekki smiti á búinu þar sem annað fólk gæti átt eftir að starfa, ef það sjálft verður alvarlega veikt. Ef óhjákvæmilegt er að sýktur einstaklingur sinni störfum á slíkum búum þarf hann að gæta ýtrustu smitvarna og fylgja leiðbeiningum um heimaeinangrun á vef embættis landlæknis.  

Einstaklingar sem hafa verið úrskurðaðir í sóttkví vegna hugsanlegs smits af völdum kórónaveiru og eru einkennalausir skulu fylgja leiðbeiningum um sóttkví á vef embættis landlæknis og er ráðlagt að gæta ýtrustu smitvarna við að sinna dýrum. Tíður handþvottur með sápuvatni er besta smitvörnin. 

Mega sláturhús sækja og taka við gripum frá búum þar sem einstaklingar eru í heimaeinangrun eða sóttkví?

Einstaklingum sem hafa greinst með veiruna sem veldur COVID-19 sjúkdómi, er skylt að fylgja leiðbeiningum um heimaeinangrun á vef embættis landlæknis. Mælt er með að einstaklingar á sauðfjár-, nautgripa-, svína-, alifugla- og hrossabúum sem hafa smitast leiti allra leiða til að fá afleysingu. Ef það er ekki mögulegt þurfa þeir að gæta ýtrustu smitvarna. Geri þeir það ætti ekki að stafa hætta af því að sækja og taka við gripum frá þessum búum. Flutningabílstjórar þurfa að gæta ýtrustu smitvarna. Tíður handþvottur með sápuvatni er besta smitvörnin.  

Ýmsar leiðbeiningar og fleiri spurningar og svör um kórónaveiruna er að finna á vef embættis landlæknis.


Getum við bætt efni síðunnar?