Fara í efni

Íslenski hrossastofninn stendur keikur

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

 


  Nú er ár liðið frá því faraldur smitandi hósta náði hámarki í reiðhestum hér á landi og lamaði meira og minna alla hestatengda starfsemi. Fjárhagslegt tjón varð umtalsvert sérstaklega þar sem fresta varð Landsmóti hestamanna um eitt ár. 
  
Um var að ræða bakteríusýkingu í efri hluta öndunarvegarins sem einkenndist af graftarkenndum hor og hósta. Öll hross landsins voru móttækileg fyrir sýkingunni og því var frá upphafi talið að um nýtt smitefni væri að ræða hér á landi.

Sýnt hefur verið fram á að sjúkdómsvaldurinn var nýr stofn af tegundinni Streptococcus zooepidemicus. Þar sem allan hrossastofninn skorti sértæk mótefni gegn þessu smitefni sköpuðust forsendur fyrir víðtækum faraldri. Þéttsetin hesthúsin og hestahaldið í heild sinni reyndust ennfremur bakteríunnni hagstætt. Þessi bakteríustofn er vel þekktur sjúkdómsvaldur í öllum okkar nágrannalöndum en veldur þar helst veikindum hjá unghrossum. Sjúkdómurinn er í flestum tilfellum talinn hættulaus en getur truflað þjálfun hrossa.

Fullvíst má telja að smitið hafi verið komið á kreik í byrjun febrúar og kannski fyrr en það náði að breiðast út um mestallt landið áður en sjúkdómurinn uppgötvaðist í byrjun apríl. Meirihluti reiðhesta á þéttbýlli stöðum landsins var búinn að taka smitið í byrjun maí. Í byrjun virtist veikin bráðsmitandi en þegar frá leið varð ljóst að smitefnið hafði búið um sig í nokkrar vikur og magnast upp innan hesthúsa án þess að menn yrðu þess varir. Þar sem sjúkdómurinn var vægur, einkum í byrjun, og meðgöngutíminn langur var ekki hægt að stöðva útbreiðslu hans. Faraldurinn var að mestu genginn yfir í byrjun vetrar.

Helsta smitleiðin var með smituðum eða veikum hrossum sem flutt voru milli húsa eða beitarhólfa. Bein snerting milli hesta var nauðsynleg í byrjun en eftir að smitið hafði magnast upp innan hesthúsa varð það ekki stöðvað. Sömuleiðis gátu menn borið það milli hrossa með óhreinindum utan á fatnaði og öðrum búnaði. Veikin barst í útigangshross með framangreindum leiðum en ekki var um loftborið smit að ræða. Smitið barst hratt milli útigangshrossa sem átu úr sömu heyrúllu og/eða drukku úr sama vatnskari en þegar leið á sumarið hægði mjög á smitdreifingunni. Smitið magnaðist á ný í stóðhestagirðingum enda bættust þar smám saman við nýir, móttækilegir einstaklingar. Folöldin reyndust alla jafna varin af mótefnum úr broddmjólkinni í u.þ.b. tvo mánuði en gátu veikst nokkuð alvarlega eftir það. Afföll voru þó sem betur fer lítil.

Allt bendir til að hrossastofninn hafi nú byggt upp nokkra mótstöðu gegn þessu smitefni og því fari hættan á nýjum faraldri dvínandi. Reiknað er með að til framtíðar verði það fyrst og fremst folöld sem eigi á hættu að sýkjast.

Faraldur smitandi hósta reyndist enn ein birtingarmynd þess hversu viðkvæmur íslenski hrossastofninn getur verið fyrir nýjum smitefnum, jafnvel þeim sem ekki eru þekkt fyrir að valda alvarlegum sjúkdómum þar sem þau eru landlæg. Því verða allir að leggjast á eitt um að efla smitvarnir landsins og verja hrossin frekari áföllum. Bann við innflutningi lifandi dýra er þar lykilatriði auk þess sem bannað er með öllu að flytja til landsins notuð reiðtygi og notaður reiðfatnaður skal sótthreinsaðaur samkvæmt reglum Matvælastofnunar.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?