Fara í efni

Hrossin, hóstinn og haustið

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

 

Nú haustar óðum og dagarnir kólna. Hestar landsins eru flestir í góðum holdum eftir mikið sprettusumar – og litla hreyfingu vegna smitandi hósta sem komið hefur illa bæði við hesta og hestaeigendur.


  Sem betur fer mun skýringin á hóstanum vera fundin, sýkillinn Streptococcus zooepidemicus sem hingað til hefur verið skaðlítill meðlimur í eðlilegri örveruflóru hrossa en hefur nú tekið á sig hættulegri mynd. Í upphafi sýkingar er erfitt að finna hann, en þegar nefrennslið fer að verða hvít- eða grænleitt er það merki þess að sýkillinn hefur náð að fjölga sér verulega. Kjörlendi sýkilsins er á slímhúðinni í öndunarvegi, sýklalyf hafa því yfirleitt takmörkuð áhrif nema þegar sýkingin hefur náð sér svo fyrir að eitlar stækki og líkamshiti hækki. Þá er að sjálfsögðu rétt að kalla til dýralækni.

Lengi vel var leitað að veiru sem mögulegum orsakavaldi hóstans en vel þekkt er að streptokokkasýkingar fylgja oft í kjölfar veirusýkinga, bæði hjá mönnum og dýrum.  Nú hafa veirur verið nánast útilokaðar sem orsök þessa sjúkdóms. Sömuleiðis hefur svipuðum sjúkdómseinkennum verið lýst erlendis þar sem S. zooepidemicus  er orsökin, afbrigði sýkilsins virðast sýna breytta hegðun.

Því er rétt að beina athyglinni frá veirukenningunni og þeim meðferðarúrræðum sem bent hefur verið á í því samhengi. Mikilvægt er sömuleiðis að koma faglegum og réttum skilaboðum til kaupenda erlendis, en útflutningur er nýhafinn eftir margra mánaða hlé. Órökstudd umræða um veirur getur haft mjög skaðleg áhrif á erlenda markaði.

Töluvert hefur verið rætt um mögulegt endursmit, en líkaminn myndar yfirleitt ekki langvarandi ónæmi gegn streptokokkum, það þekkja þeir sem hafa fengið ítrekaðar sýkingar í háls af völdum streptokokka. Algengasta orsök endursmits er að sýkt hross kemur inn í hjörðina, þá sést smitið í heimahrossunum 2- 4 vikum seinna.

Hestaeigendur hafa eðlilega áhyggjur af kaldari tíð og heilsufari hrossana í vetur. Best er fyrir hrossin að ganga úti, að þau fari vel feit inn í veturinn en fitan er þeim nauðsynleg vörn gegn kulda, að þau hafi aðgengi að skjóli, góðri beit, vatni og steinefnum. Ormahreinsanir eru mikilvægar til að viðhalda heilbrigði.
Fylgjast skal sérstaklega vel með folöldum sem virðast nú afar móttækileg fyrir sýkingunni. Þegar hryssurnar bíta undan sér í vetur þarf  að huga vel að þessum hópi. Mikilvægt er að nýjum hrossum sé ekki bætt í stóðið nema að brýna nauðsyn beri til og þá sé fylgst vel með stóðinu næstu mánuði.

Að lokum skal minnt á að Keldur kryfja nú hross eigendum að kostnaðarlausu, ef líkur eru á að hóstinn hafi orðið hrossinu að fjörtjóni. Hestaeigendur eru því hvattir til að láta dýralækni  vita um grunsamleg tilvik, með því móti leggja þeir sitt af mörkum til aukinnar þekkingar á sjúkdóminum.

Ítarefni




Getum við bætt efni síðunnar?