Fara í efni

Greining á blóðsjúgandi mítlum á smyrli

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum fékk nýverið til rannsóknar hræ af smyrli sem var smitaður af gífurlegum fjölda mítla sem sáust með berum augum. Við greiningu kom í ljós að um fuglamítilinn Ornithonyssus sylviarum var að ræða sem hefur ekki greinst hér á landi áður en getur verið mikill skaðvaldur ef hann nær fótfestu á alifuglabúi.

Tilraunastöðin að Keldum upplýsti þann 7. mars 2023 um greiningu á fuglamítlinum Ornithonyssus sylviarum. Hann fannst í miklum fjölda á smyrli sem líffræðingur og doktorsnemi hjá Þekkingarsetri Suðurnesja fékk í hendur í lok febrúar á þessu ári. Smyrillinn var veikburða og með mikið magn af þessum blóðsjúgandi mítlum sem sáust með berum augum. Fuglinn drapst stuttu seinna, líklega vegna skaða sem hann hlaut af mítlunum.

Ekki er vitað til þess að fuglamítillinn Ornithonyssus sylviarum hafi fundist í alifuglum eða í öðrum fuglum í haldi hér á landi. Árið 2018 greindust mítlar af þessari tegund í búrfuglum í sóttkví hjá innflytjanda en innflutningnum var hafnað vegna greiningarinnar. Lesa má um það mál í frétt á heimasíðu Matvælastofnunar frá því í mars 2018.

Fuglamítilinn Ornithonyssus sylviarum er útbreiddur um allan heim og getur valdið miklum skaða í sýktum hópum, hann veldur þjáningu og jafnvel miklum fjölda dauðsfalla meðal fugla sé ekki gripið til viðeigandi aðgerða. Það er því til mikils að vinna að halda þessum skaðvaldi frá alifuglum og öðrum fuglum í haldi. Við kaup og sölu, og annan flutning fugla, er mikilvægt að gæta þess að fuglarnir séu heilbrigðir og lausir við sníkjudýr. Ef vart verður við mítla er mikilvægt grípa fljótt til aðgerða til að útrýma þeim. Fuglaeigendur ættu að setja sig strax í samband við dýralækni, ef grunur vaknar um mítlasmit.

Ítarefni

Frétt á vef Keldna

Merck Veterinary Manual: Upplýsingar um Northern fowl mite Ornithonyssus sylviarum


Getum við bætt efni síðunnar?