Fara í efni

Fuglamítill í búrfugli í sóttkví

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Norrænn fuglamítill (Ornithonyssus sylviarum) greindist nýverið á búrfugli í sóttkví hjá innflytjanda. Um er að ræða sníkjudýr sem getur haft alvarleg áhrif á heilsu og velferð fugla, og hefur aldrei áður greinst hér á landi. Matvælastofnun hefur því hafnað innflutningi á viðkomandi hópi fugla og gefið innflytjanda kost á að flytja fuglana úr landi ellegar aflífa þá.

Sníkjudýrafræðingar á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum greindu mítilinn Ornithonyssus sylviarum á kanarífugli sem hafði drepist í sóttkví hjá innflytjanda. Um 12 þúsund mítlar og yfir 12 þúsund egg greindust á fuglinum og eru taldar verulegar líkur á að smit hafi þegar breiðst út á meðal fuglanna í sóttkvínni. Mítillinn er ekki tegundasértækur sem þýðir að hann getur borist í og valdið sjúkdómi í ýmsum fuglategundum. Hann er einn alvarlegasti sjúkdómsvaldur á alifuglabúum í Norður-Ameríku. Hann sýgur blóð úr fuglunum og veldur þeim miklum óþægindum, hefur neikvæð áhrif á vöxt og varp og getur valdið dauða. Mítillinn getur lifað í margar vikur í umhverfi fuglanna og mjög erfitt er að útrýma honum. Hann getur borist á önnur dýr, fólk og ýmis konar búnað og þannig breiðst út. Bærist slíkt smit í fugla á Íslandi gæti það haft alvarlegar afleiðingar hvort sem litið er til dýraheilbrigðis, dýravelferðar eða fjárhagslegs tjóns.

Um innflutning dýra gilda ströng skilyrði og er það lögboðið hlutverk Matvælastofnunar að fyrirbyggja að smitsjúkdómar berist til landsins með innfluttum dýrum. Komi smitsjúkdómur upp á einangrunartíma innfluttra dýra eru þau jafnan meðhöndluð sé þess nokkur kostur og ef jafnframt er hægt að tryggja með öruggum greiningaraðferðum að smitefni hafi verið útrýmt. Matvælastofnun ígrundaði vel möguleika á að útrýma mítlinum úr sóttkvínni en komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri nægilega tryggt að meðhöndlun bæri árangur auk þess sem aðferðir við greiningu mítlanna á fuglunum eru ekki það næmar að hægt sé að ganga úr skugga um, á fullnægjandi hátt, að útrýming hafi tekist. Stofnunin lítur því svo á að ekki verði með óyggjandi hætti hægt að koma í veg fyrir að hann berist inn í landið úr sóttkvínni. Innflytjanda var því tilkynnt að innflutningi búrfuglanna væri hafnað og var honum gefinn kostur á að flytja þá úr landi ellegar aflífa þá. 

Mynd tengist ekki frétt með beinum hætti

Frétt uppfærð 02.04.18 kl. 17:47


Getum við bætt efni síðunnar?