Fara í efni

Fleiri greiningar á H5N5 fuglaflensu í villtum fuglum

Samkvæmt nýjustu rannsóknum á fuglaflensu í villtum fuglum er skæð fuglaflensa útbreidd um allt land en ekki eru vísbendingar um fjöldadauða.

Í vikunni voru sýni rannsökuð hjá Tilraunastöð HÍ á Keldum, úr hrafni sem fannst dauður rétt hjá húsnæði Matvælastofnunar á Selfossi þann 19. október sl. Rannsóknin leiddi í ljós að hann var sýktur af skæðri fuglaflensu af gerðinni H5N5. Sama gerð fannst einnig í ritu sem tilkynnandi fann veika í garðinum hjá sér á Hallormsstað um miðjan október þar sem hún svo drapst.

Áður hafði skæð fuglaflensa H5N5 greinst í erni á Breiðafirði og æðarfugli á Ólafsfirði. Sterkar vísbendingar eru um það að þessi gerð hafi borist með villtum fuglum til landsins síðsumars, eins og fjallað var um í frétt Matvælastofnunar 3. október sl.

Matvælastofnun hefur ekki fengið tilkynningar um fjöldadauða í villtum fuglum nú í haust. Enn sem komið er virðast því áhrif þessa afbrigðis á villtu fuglastofnana ekki vera mjög alvarleg. 

Sú gerð fuglaflensuveirunnar sem mest var um á síðasta ári (H5N1) er enn til staðar í villtum fuglum í landinu en virðist ekki vera mjög útbreidd. Hún hefur aðeins greinst í tveimur fuglum á þessu ári, einni ritu sem fannst í júlí á Höfn í Hornafirði og í stokkönd í Garðabæ í mars.

Það er áfram mikilvægt að Matvælastofnun fái aðstoð almennings við vöktun á fuglaflensu í villtum fuglum. Fólk er hvatt til að tilkynna fund á veikum og dauðum villtum fuglum til stofnunarinnar, helst með hnitum fundarstaðarins. Enn eru í gildi hertar varúðarráðstafanir til verndar alifuglum og öðrum fuglum í haldi. Mikilvægt er að verja þá fyrir smiti með því að halda þeim í lokuðum gerðum undir þaki eða innandyra.

Ítarefni

Upplýsingasíða Matvælastofnunar um fuglaflensu

Mælaborð Matvælastofnunar um sýnatökur og niðurstöður rannsókna vegna fuglaflensu


Getum við bætt efni síðunnar?