Fara í efni

Enn hætta á fuglaflensu í farfuglum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun telur að fuglaflensa hafi líklega ekki viðhaldist í íslenskum staðfuglum í vetur. Stofnunin hefur þess vegna lækkað viðbúnaðarstig úr stigi þrjú í stig tvö. Enn er talin vera töluverð hætta á að skæðar fuglaflensuveirur berist með farfuglum til landsins. Þess vegna gilda áfram hertar sóttvarnaráðstafanir sem m.a. fela í sér að alifuglar og aðrir fuglar í haldi skulu hafðir innanhúss eða í lokuðum gerðum undir þaki.

Frá því í október 2022 hefur verið áberandi fækkun á tilkynningum frá almenningi um fund á veikum og dauðum villtum fuglum. Fuglaflensa greindist ekki í þeim fáum sýnum sem hægt var að taka. Matvælastofnun telur því að smit í villtum fuglum með skæðum fuglaflensuveirum hafi fjarað út í vetur þrátt fyrir að veirurnar hafi fundist síðastliðið haust í staðfuglum svo sem hröfnum, örnum og svartbökum. Í ljósi þessa er viðbúnaðarstig lækkað úr stigi þrjú í stig tvö.

Á meginlandi Evrópu og á Bretlandseyjum geisaði skæð fuglaflensa í villtum fuglum í vetur í svipuðu umfangi og veturinn 2021-2022. Í vetur voru óvenju margar greiningar í máfum, sér í lagi í hettumáfum, í Frakklandi, Belgíu, Hollandi og á Ítalíu. Frá því í nóvember í fyrra fram í febrúar á þessu ári greindist skæð fuglaflensa á 522 stöðum í fuglum í haldi í Evrópu og hefur valdið miklum skaða. Margir íslenskir farfuglar koma frá svæðum í Belgíu, Hollandi og á Bretlandseyjum og eru því enn töluverðar líkur á að farfuglar sem eiga eftir að koma geti borið með sér smit. Matvælastofnun telur þess vegna ekki óhætt að aflétta þeim sóttvarnaráðstöfunum sem í gildi eru. Stofnunin mun endurskoða áhættuna þegar flestir farfuglar eru komnir til landsins, eftir miðjan maí.

Almenningur er beðinn um að tilkynna um dauða og veika villta fugla, nema ef augljóst er að þeir hafi drepist af öðrum orsökum en veikindum. Tilkynningarnar eru mjög mikilvægar þótt ekki séu alltaf tekin sýni, því þær gefa vísbendingar um hversu mikið er um sýkingar og hversu útbreiddar þær eru. Best er að tilkynna með því að setja inn ábendingu á heimasíðu stofnunarinnar, skrá þar tegund og fjölda fugla, og lýsa staðsetningu þeirra sem nákvæmast, helst með hnitum. Upplýsingar um sýni sem tekin hafa verið og niðurstöður rannsókna á þeim má sjá á mælaborði MAST um niðurstöður sýna úr villtum fuglum.

Ítarefni

Upplýsingasíða Matvælastofnunar vegna fuglaflensu

Viðbúnaðarstig vegna fuglaflensu

Frétt frá 23. febrúar 2023

Skýrsla EFSA um fuglaflensu frá desember 2022 til mars 2023


Getum við bætt efni síðunnar?