Eftirlitsdýralæknir Inn- og útflutningsdeild
Matvælastofnun leitar að dýralækni á inn- og útflutningsdeild á starfsstöð stofnunarinnar í Reykjavík til þess að sinna eftirliti með innflutningi afurða og inn- og útflutningi dýra. Starfinu er sinnt að hluta til á starfsstöð og að hluta til á landamærastöðvum og einangrunarstöð í Suðvesturumdæmi. Á inn- og útflutningsdeild starfa 13 sérfræðingar og mikil áhersla er lögð á teymisvinnu og umbætur í verklagi.
Matvælastofnun (MAST) er nútímaleg og framsækin þjónustustofnun sem stendur vörð um hagsmuni og heilsu manna, dýra og plantna og eykur þannig velferð og verðmætasköpun í þágu þjóðarinnar. Starfsumhverfið er fjölskylduvænt og áhersla lögð á starfsánægju og góð samskipti ásamt því að stuðla að öflugu og lifandi þekkingarsamfélagi. Gildin sem starfsfólk hefur að leiðarljósi eru FAGMENNSKA, GAGNSÆI OG TRAUST.
Nánari upplýsingar um stofnunina er að finna á www.mast.is
Helstu verkefni og ábyrgð
- Vöktun og afgreiðsla innflutnings í Traces og öðrum kerfum.
- Skoðun sendinga á landamærastöðvum.
- Innflutningsskoðun gæludýra.
- Útgáfa og áritun útflutningsvottorða gæludýra.
- Viðbrögð við frávikum.
- Samskipti við hagaðila, þ.e. stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga.
- Þátttaka í námskeiðum.
- Þátttaka í umbótastarfi.
Hæfniskröfur
- Dýralæknismenntun og gilt starfsleyfi á Íslandi.
- Þekking á eða reynsla af eftirliti er kostur.
- Öguð vinnubrögð, góð tölvufærni og sjálfstæði í starfi.
- Reynsla og innsýn í opinbera stjórnsýslu æskileg.
- Frábær samskiptafærni, samstarfshæfni og geta til að starfa í teymi.
- Íslenskufærni málfar og ritun B2 skv. samevrópska tungumálarammanum æskileg.
- Enskufærni málfar og ritun C1 skv. samevrópska tungumálarammnum.
Frekari upplýsingar um starfið
Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármála- og efnahagsráðherra og Dýralæknafélag Íslands hafa gert.
Í boði er 36 stunda vinnuvika, næg bílastæði og ýmis hlunnindi eins og símastyrkur, heilsustyrkur o.fl. Hjá okkur er starfandi öflugt starfsmannafélag sem skipuleggur viðburði af og til.
Með umsókn skal fylgja starfsferilskrá og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og hæfni umsækjanda sem nýtist í starfi. Öllum umsóknum verður svarað þegar ráðning liggur fyrir. Vakin er athygli á því að umsóknin gildir í sex mánuði eftir að umsóknarfrestur rennur út nema umsækjandi ákveði annað.
Starfshlutfall er 100%
Umsóknarfrestur er til og með 13.10.2025