Fara í efni

Aukin hætta á fuglainflúensu með komu farfugla

Farfuglatímabilið er nú í hápunkti. Farfuglar streyma til landsins, m.a. frá sýktum svæðum í norðurhluta Evrópu þar sem fuglainflúensa hefur valdið skaða í alifuglum. Óvissustig er í gildi og því skulu allir fuglaeigendur tryggja góðar sóttvarnir í sínum fuglahópum, til að koma í veg fyrir smiti frá villtum fuglum. Matvælastofnun biður almenning um að tilkynna um fund á veikum og dauðum villtum fuglum.

Líkt og undanfarin ár þá fer fuglainflúensutilfellum fækkandi á meginlandi Evrópu með hækkandi sól. Venjulega eru sýkingar á þeim slóðum algengastar yfir veturinn, bæði í villtum fuglum og í alifuglum. Með tilfærslu íslenskra farfugla frá vetrarstöðvum þeirra til okkar eykst aftur á móti smithætta hér á landi á vorin. Greiningar í Evrópu sl. vetur hafa þó verið mun færri en búist var við, en óvíst er hvort um raunverulega fækkun á smiti í villtum fuglum hafi verið að ræða eða um breytingar á vöktun á hverjum stað. Sýkingar í vetur hafa verið algengastar í vatnafuglum, sér í lagi í álftum, hnúðsvönum, helsingjum, grágæsum og stokköndum. En einnig hélt sýking áfram að finnast í máfum, svo sem silfurmáfum og hettumáfum, en ekki nærri í sama umfangi og á tímabilinu 2022 til 2023. Frá þessu greinir Matvælaöryggisstofnun Evrópu í ársfjórðungslegri skýrslu um fuglainflúensu fyrir tímabilið desember 2023 til mars 2024.

Fuglainflúensa hefur ekki greinst hér á landi síðan í nóvember 2023. Þá fundust skæðar fuglainflúensuveirur af gerðinni H5N5 í hröfnum á Selfossi og í Mýrdal. Áhættumatshópur um fuglainflúensu álítur að smithætta fyrir fugla í haldi hafi aukist með komu farfugla. Óvissustig er því áfram í gildi og eru alifuglabændur og allir sem halda fugla hvattir til að tryggja góðar sóttvarnir fyrir sína fugla og tilkynna tafarlaust til Matvælastofnunar ef vart verður við óvenjuleg veikindi eða dauðsföll í fuglahópnum.

Það er mikilvægt fyrir Matvælastofnun að fá tilkynningar frá almenningi um fund á veikum og dauðum villtum fuglum. Æskilegt er að fá ábendingu með myndum og með hnit fundarstaðarins, lýsingu á fjölda fugla og tegund. Matvælastofnun metur þörf á sýnatöku, en ekki eru tekin sýni úr öllum villtum fuglum sem tilkynnt er um. Engu að síður eru allar tilkynningar mikilvægar fyrir mat á stöðunni.

Smithætta fyrir almenning frá sýktum villtum fuglum er talin lítil. Þrátt fyrir það er almenningur hvattur til að snerta ekki hræ villtra fugla. Finnist einstök hræ í nærumhverfi fólks er hægt að fjarlægja þau, að höfðu samráði við Matvælastofnun um sýnatökur, með því að taka þau upp með plastpoka og farga með öðru sorpi. Fjöldadauða í villtum fuglum skal ávallt tilkynna til Matvælastofnunar, sem tekur ákvörðun um hvað skuli gera.

Fuglainflúensa hefur náð ógnvekjandi útbreiðslu í villtum fuglum um allan heim á síðustu örfáum árum, með aukinni aðlögun skæða veirustofnsins H5 2.3.4.4b að villtum fuglum. Í fyrra náði sjúkdómurinn til Suður-Ameríku sem hefur áður verið laus við þessa vá. Vísindamenn óttuðust að veiran gæti náð til Suðurskautslandsins með tilheyrandi hrikalegum áhrifum á dýralífið þar. Margar tegundir fugla lifa þar þétt saman og hafa enga mótefnavörn gegn fuglainflúensu, því gæti veiran valdið miklum afföllum meðal tegunda í útrýmingarhættu. Eftir greiningar á nærliggjandi eyjum síðastliðið haust greindist skæða afbrigði H5 í fyrsta skipti á meginlandi Suðurskautslandsins í febrúar á þessu ári, í tveimur skúmum. Enn sem komið er er um einangruð tilfelli að ræða. Víða í heiminum hafa margar fuglategundir þurft að þola veruleg afföll. Með aukinni útbreiðslu í villtum fuglum hafa greiningar í öðrum dýrategundum aukist, svo sem í villtum sjávarspendýrum og í villtum rándýrum og hræætum, en einnig í spendýrum í haldi. Athygli vöktu greiningar á skæðri fuglainflúensu í geitum og síðan í mjólkurkúm í Bandaríkjunum. Staðfesting á fyrstu tilfellum í kúm lá fyrir í lok mars á þessu ári og síðan þá hefur tilfellum fjölgað í mismunandi fylkjum um allt landið. Enn eru smitleiðir óljósar en talið er að í einhverjum tilfellum hafi kýr smitast af sýktum villtum fuglum í nærumhverfi þeirra. Erfðafræðilegar rannsóknir hafa sýnt fram á að um sé að ræða arfgerðir skæðrar veiru, sem hefur ekki fundist í Evrópu. Einn maður á sýktu kúabúi sýndi væg einkenni með bólgu í augum og reyndist smitaður. Sýkingar í fólki af völdum fuglainflúensuveira eru sjaldgæfar en ekki hægt að útiloka þær. Fólk sem sinnir sýktum dýrum eða dýrum með grunsamleg sjúkdómseinkenni, skal ávallt gæta persónulegra smitvarna í samræmi við leiðbeiningar Embætti landlæknis.

Ítarefni:

Upplýsingasíða Matvælastofnunar um fuglainflúensu

EFSA skýrsla um fuglainflúensu desember 2023 – mars 2024


Getum við bætt efni síðunnar?