Fara í efni

Árangursríkar aðgerðir til útrýmingar Gumboroveiki

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Aðgerðir til útrýmingar Gumboroveiki í kjúklingaeldi virðast hafa tekist samkvæmt niðurstöðum rannsókna og hafa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Matvælastofnun því aflétt þeim takmörkunum og aðgerðum sem fyrirskipaðar voru. 

Þann 23. ágúst tilkynnti Matvælastofnun um greiningu á tveimur sjúkdómum í kjúklingum á Rangárbúinu á Hólavöllum í Landsveit sem ekki höfðu áður greinst hér á landi. Um er að ræða veirusjúkdómana Gumboroveiki (e. Gumboro disease / Infectious bursal disease - IBD) og innlyksa lifrarbólgu (e. Inclusion body hepatitis - IBH). Líklegt er að innlyksa lifrarbólga hafi komið upp í kjúklingunum í kjölfar smits með Gumboroveikiveirunni og því miðuðu aðgerðir að útrýmingu á þeirri veiru. Rannsóknir á útbreiðslu sýndu að Gumboroveikin væri staðbundin við Hólabúið og hafi ekki náð að breiðast út, þrátt fyrir að vera bráðsmitandi sjúkdómur í alifuglum. 

Matvælastofnun lagði til aðgerðaráætlun í fjórum skrefum til útrýmingar veirunni, í samvinnu við Reykjagarð hf. Fyrst voru húsin mjög nákvæmlega þrifin og sótthreinsuð. Húsin voru einnig hitameðhöndluð með því að halda hita í þeim í 50°C í þrjá sólarhringa. Síðan voru húsin hvíld í 16 vikur en til stóð að hvíla þau í að minnsta kosti tólf vikur. Í byrjun janúar á þessu ári hófst innsetning á kjúklingum á ný að undangenginni bólusetningu gegn Gumboroveiki í útungunarstöð, sem gripið var til vegna þess að ekki var hægt að reikna með að þrif og sótthreinsun dygðu til að drepa allt smitefni á búinu. Í síðasta skrefi var fylgst með hvort Gumboroveikiveiran fyndist í bólusettum kjúklingum, með mótefnamælingum.  

Nú hafa borist niðurstöður úr kjúklingum úr öllum fjórum eldishúsum. Öll sýni voru neikvæð og þar með bendir ekkert til þess að kjúklingarnir hafi smitast í eldishúsum á Rangárbúinu. Engin sjúkdómseinkenni hafa heldur komið upp sem benda til Gumboroveiki eða innlyksa lifrarbólgu (Inclusion Body Hepatitis IBH). Þó áætlað hafi verið að það gæti þurft að setja inn tvo til þrjá hópa í hvert hús þar til ekki greindist smit lengur, þá reyndist það ekki vera raunin. 

Það er niðurstaða Matvælastofnunar að tekist hafi að koma í veg fyrir nýsmit í kjúklingum á Rangárbúinu. Stofnunin lagði því til við ráðuneytið að aflétta opinberum fyrirskipunum um bólusetningu á kjúklingum á Rangárbúinu á Hólavöllum og viðkomandi stofnfuglum, og hefur það verið gert. Takmörkunum sem Matvælastofnun setti á búið til að hindra útbreiðslu smits hefur jafnframt verið aflétt. 

Þetta eru mjög ánægjulegar niðurstöður í ljósi þess hversu lífsseig veiran er í alifuglahúsum. Í flestum löndum í heiminum þar sem alifuglarækt er stunduð er Gumboroveiki landlæg. Varphænur og kjúklingar eru þar bólusett að staðaldri vegna þess að ekki tekst að losa búin við smit. Ísland er eitt af fáum löndum í heiminum sem hafa ekki þurft að bólusetja gegn Gumboroveiki og telur stofnunin að þessi ákjósanlega staða hafi nást aftur. 

Enn er ekki vitað hvernig smit barst á búið. 


Getum við bætt efni síðunnar?