Fara í efni

Staða aðgerða gegn Gumboro-veiki í kjúklingaeldi

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í október 2019 upplýsti Matvælastofnun um aðgerðaráætlun í fjórum skrefum til útrýmingar Gumboro-veikinnar á Rangárbúinu á Hólavöllum í Landssveit. Þessi bráðsmitandi veirusjúkdómur greindist í alifuglum á búinu sl. sumar en hann leggst ekki á önnur dýr eða fólk.

Skrefin fjögur í aðgerðaráætluninni eru að: 

  1. þrífa húsin mjög nákvæmlega og sótthreinsa þau. Þessari aðgerð lauk 19. september s.l.
  2. hvíla húsin í minnst þrjá mánuði eða að lágmarki til 19. desember 2019.
  3. setja í húsin einungis bólusetta kjúklinga. Bólusetning veitir nægilega vörn gegn hugsanlegu smiti.
  4. fylgjast með því hvort smit sé til staðar í kjúklingum. Ef ekki greinist smit í þeim verða opinberar takmarkanir afléttar. 

Þann 10. janúar s.l. hófst þriðja skref, þar sem fyrsti hópur kjúklinga var settur í eitt eldishús á Rangárbúinu. Kjúklingarnir eru undan foreldrafuglum sem voru bólusettir í þeim tilgangi að veita ungum vörn gegn hugsanlegu smiti á fyrstu lífdögum. Kjúklingarnir voru sjálfir bólusettir með svokölluðu vektor bóluefni til að veita þeim nægilega vörn allan eldistímann vegna þess að ekki er hægt að reikna með að þrif og sótthreinsun hafi dugað til að drepa allt smitefni á búinu. Fylgst verður með heilbrigði kjúklinga með blóðsýnatöku. Sýnin verða tekin bæði í eldi og svo aftur við slátrun. 

Áfram gilda takmarkanir á Rangárbúinu til að koma í veg fyrir útbreiðslu smits því enn er óljóst hvort búið sé laust við veikina. Flutningur kjúklinga til slátrunar og slátrun fara fram undir eftirliti Matvælastofnunar og með ströngum smitvörnum. Það er ítrekað hér að fólk getur ekki smitast við neyslu á kjúklingakjöti. 

Á næstu vikum verða fleiri ungahópar fluttir í eldishúsin að undangenginni bólusetningu. Ef ekki kemur upp smit í kjúklingum í neinu eldishúsi Rangárbúsins þá er hægt að aflétta kröfu um bólusetningu og öðrum takmörkunum. Matvælastofnun telur að fengnu áliti erlendra sérfræðinga að ef smit er enn til staðar þá geti þurft að ala allt að þrjá bólusetta hópa í hverju eldishúsi þar til smit finnst ekki.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?