Fara í efni

Annar ólöglegur innflutningur notaðra reiðtygja

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í lok síðustu viku fékk Matvælastofnun tilkynningu frá Tollgæslunni í Reykjavík um sendingu frá Þýskalandi sem hafði að geyma reiðtygi. Matvælastofnun framkvæmdi skoðun sem staðfesti að um notuð reiðtygi væri að ræða. Í framhaldi af því var sendingin stöðvuð.

Stutt er síðan Matvælastofnun greindi frá ólöglegum innflutningi á notuðum reiðtygjum sem uppgötvaðist við innflutningseftirlit á Seyðisfirði 13. nóvember s.l. Um var að ræða hnakk, ólíkar gerðir múla, gjarðir, hlífar, píska, hestaábreiðu, reiðhanska o.fl. Matvælastofnun mun kæra málin tvö og er fyrirhugað að láta farga reiðtygjunum. 

Að gefnu tilefni vill Matvælastofnun árétta að samkvæmt lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim (25/1993) er með öllu óheimilt að flytja notuð reiðtygi til landsins. Einnig er bannað að flytja inn notaða reiðhanska en annan notaðan reiðfatnað má flytja til landsins að uppfylltri kröfu um sótthreinsun.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?