• Email
 • Prenta

Ferðamenn

Ferðamenn eru beðnir að gæta ítrustu smitvarna

Íslendingar sem ferðast erlendis og erlendir ferðamenn sem koma til Íslands eru mikilvægir hlekkir í sjúkdómavörnum. Þeim er treyst til að fara að settum reglum og gæta ítrustu varkárni við komuna til landsins. 

Ferðamönnum ber að varast að hafa með sér grófbotna skó, stígvél eða annað sem notað hefur verið í umhverfi dýra.

Ferðist fólk um landbúnaðarsvæði skal það setja öll föt, sem notuð eru við heimsóknir á bú, í plastpoka strax að lokinni notkun og þvo í þvottavél eða þurrhreinsa í efnalaug strax eftir heimkomu. Skófatnað þarf einnig að þrífa og síðan sótthreinsa með VirkonS® eða öðrum sambærilegum efnum, sem má fá hjá dýralæknum og verslunum sem selja vörur til landbúnaðarins. Klór er ekki virkt gegn öllum veirum t.d. gin- og klaufaveikiveiru. 

Komi ferðamaður beint frá búi erlendis, eða hafi verið í snertingu við dýr rétt fyrir komuna til landsins, er óæskilegt að hann umgangist dýr á Íslandi fyrstu 48 klukkustundirnar.

Reiðfatnaður og reiðtygi

Vegna landfræðilegrar einangrunar og strangra innflutningsreglna hefur Ísland sloppið að mestu við alvarlega smitsjúkdóma í dýrum. Það er skylda okkar að standa vörð um góða sjúkdómastöðu og leita allra leiða til að hindra að varhugaverð smitefni berist til landsins. 

Þegar ferðast er milli landa er nauðsynlegt að gæta ítrustu smitvarna!

 • Óheimilt er að flytja til landsins:
      Notuð reiðtygi, s.s. hnakka, beisli, múla, hlífar, dýnur, yfirbreiðslur, píska o.s.frv.
      Notaða reiðhanska
 • Þvottur og sótthreinsun:
      Notaðan reiðfatnað skal þvo í þvottavél eða þurrhreinsa í efnalaug áður en komið er til landsins
      Notaðan reiðfatnað sem ekki er hægt að þvo í þvottavél eða þurrhreinsa í efnalaug, skal hreinsa og sótthreinsa með
      eftirfarandi hætti:
            Þvo mjög vel með sápuvatni
            Þurrka 
            Úða með 1% VirkonS® (10g í hvern lítra af vatni)
            Geyma í a.m.k. 5 daga áður en búnaðurinn er notaður í umhverfi hesta hér á landi
 • Hestamenn sem ekki eru í aðstöðu til að þrífa  og sótthreinsa notaðan reiðfatnað áður en komið er til landsins geta framvísað óhreinan reiðfatnað í „rauða hliðinu“ í tollinum í lokuðum plastpokum. (Með reiðfatnaði er átt við reiðbuxur hverskonar, reiðjakka,  –úlpur, -skó,  –stígvél og -hjálma en þessa þjónustu má einnig nýta fyrir annan fatnað og skófatnað sem notaður hefur verið í umhverfi hesta erlendis . Ekki er þó tekið við leður- og vaxjökkum.) Viðkomandi hestamenn skulu gera vart við sig í „rauða hliðinu“ í flugstöðinni og framvísa fatnaðinum þar til tollvarða. Tollverðir sjá til þess að fatnaðurinn, ásamt upplýsingum um eiganda,  fari í sérstaka kassa sem þeir hafa í sinni vörslu þar til þeir eru sóttir af fatahreinsuninni. Að lokinni hreinsun verður fatnaðurinn sendur í póstkröfu til eiganda.

Komi farþegar með óhreinan reiðfatnað í græna  hliðið við tollgæslu á Keflavíkurflugvelli eða verði vísir að því að vera með óhreinan reiðfatnað við tollskoðun í græna hliðinu, verður litið á slíkt sem smygl. Varningurinn er þá gerður upptækur  og viðkomandi kærður. Sama á við um sendingar sem innihalda óhreinan reiðfatnað og koma til landsins með pósti, skipa- eða flugfrakt. 

Ráðstöfun þessi tekur ekki til notaðra reiðtygja, reiðhanska eða annars búnaðar sem notaður hefur verið í hestamennsku enda er innflutningur á slíkum varningi óheimill.

Veiðibúnaður

Illkynja sjúkdómsvaldar á borð við veirur ýmis konar og sníkjudýrið Gyrodactylus salaris hafa aldrei greinst í ferskvatnsfiskum á Íslandi.

 • Óheimilt er að flytja til landsins:
      Notaðan veiðibúnað, s.s. stangir, veiðihjól, öngla/spóna/flugur, vöðlur og háfa, nema að hann sé sótthreinsaður með viðurkenndum hætti
 • Sótthreinsun:
      Sótthreinsun skal framkvæmd af dýralækni í útflutningslandi og vottorð þar um skal fylgja búnaðinum til landsins. Að
      öðrum kosti ber að tilkynna 
  tollayfirvöldum um veiðibúnaðinn við komuna til landsins sem sér um að koma honum
      til sótthreinsunar á kostnað eiganda.

Matvæli

Sjúkdómar geta borist í dýr og menn með matvælum og því ástæða til að gæta ítrustu varkárni.

 • Óheimilt er að flytja til landsins :
      Hrátt kjöt þ.m.t. spægipylsu og hráskinku
      Ósoðin egg
      Ógerilsneiddar mjólkurafurðir
 • Heimilt er að flytja til landsins:
      Soðin eða unnin matvæli, enda komi skýrt fram á umbúðum að þau hafi verið meðhöndluð á viðeigandi hátt. Hver
      einstaklingur má koma með til landsins allt að 3 kg af kjöti.

Viðbúnaður ferðaþjónustuaðila

Á síðari árum hefur færst í vöxt að ferðamenn komi í fjós, á bændabýli, til hestamanna og nýti sér ferðaþjónustu bænda um lengri eða skemmri tíma. 


Ekki er vitað til þess að sjúkdómar hafi borist til landsins í kjölfar þessara heimsókna og má það eflaust þakka árvekni fólks og fararstjóra þeirra þegar um skipulagðar ferðir er að ræða.

Eftirtalin atriði er vert að hafa í huga til að draga úr smithættu:

 • Gestir skulu varast að hafa með sér grófbotna skó, stígvél eða annan búnað sem notaður hefur verið í umhverfi dýra.
 • Komi gestir beint frá bóndabæ erlendis eða hafi verið í snertingu við dýr rétt fyrir komuna til landsins, er óæskilegt að þeir umgangist dýr á Íslandi fyrstu 48 klukkustundirnar.
 • Við heimsókn í gripahús ættu allir gestir að klæðast hreinum utanyfirfötum og stígvélum eða skóhlífum, annað hvort einnota eða fatnaði búsins. Til viðbótar er gott að hafa sótthreinsandi skóbað við inngöngu í gripahúsin.
 • Gott er að setja upp viðvörunarskilti á áberandi stöðum til að vekja fólk til umhugsunar.
 • Dýrum skulu ekki gefnar matarleifar.

Móttaka á sorpi frá erlendum skipum

 • Allt sorp skal vera í heilum plastpokum (sorppokum).
 • Sorppokum er raðað í "stórsekki" um borð í skipunum.
 • Stórsekkjum er hlaðið í lokaða flutningagáma og ekið beint á viðurkenndann urðunarstað, sem hefur starfsleyfi heilbrigðisnefndar.
 • Flutningagámar skulu vera vökvaheldir.
 • Á urðunarstað skulu stórsekkir huldir strax með jarðvegi eða á annan hátt til varnar aðgengi vargfugls og meindýra að innihaldi þeirra.
 • Að lokinni tæmingu flutningatækis skal það þrifið og síðan sótthreinsað með VirkonS® eða öðru viðurkenndu sótthreinsiefni á losunarstað.
 • Flutningsaðili skal halda skrá yfir flutninga á sorpi og öðrum úrgangi frá erlendum skipum. Þar skal koma fram nafn skipsins og uppruni, dagsetning, förgunarstaður og vottun starfsmanns um fullkomna förgun úrgangsins og sótthreinsun og þrif á gámi.
 • Ofangreindar verklagsreglur um flutning, flutningatæki og sótthreinsun eiga einnig við þar sem sorpi er brennt í viðurkenndum sorpbrennslustöðvum.