Aðgerðir gegn riðu - ný nálgun
Nú er niðurskurði vegna riðu á bænum Stórhóli í Húnavatnssýslu lokið en riða greindist í skimunarsýni sem tekið var úr kind frá þeim bæ fyrr í haust. Ákveðið var að fara í hlutaniðurskurð í fyrsta sinn og var sú ákvörðun tekin á grundvelli nýjustu rannsókna á riðu hérlendis.
Arfgerðagreiningar á hjörðinni leiddu í ljós að töluvert var um kindur með verndandi eða mögulega verndandi arfgerðir. Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) var fengin til að útbúa ræktunaráætlun fyrir hjörðina og mögulegar sviðsmyndir skoðaðar áður en tekin var ákvörðun í samráði við bændurna um að fara í hlutaniðurskurð. Þær kindur sem greindust með næmar arfgerðir voru skornar niður, en þær rúmlega 100 kindur sem eru með verndandi og mögulega verndandi arfgerðir voru undanskildar niðurskurði og verða grunnurinn að uppbyggingu á nýrri hjörð með vörn gegn riðuveiki.
Ákveðin skilyrði eru sett varðandi það fé sem eftir er á bænum og varðandi uppbyggingu hjarðarinnar. Þau helstu eru:
- Kindur sem ekki voru skornar niður og þær sem við hjörðina kunna að bætast skal einangra og halda innan fjárheldra girðinga á bænum í allt að sjö ár frá niðurskurði, enda greinist hefðbundin riða ekki á því tímabili. Matvælastofnun er þó heimilt að leyfa að kindurnar séu haldnar í einangrun annars staðar.
- Skylt er að rækta upp hjörðina á þessum sjö árum með það að markmiði að hún verði ónæm fyrir riðu, enda verði allt ásetningsfé arfgerðagreint sé arfgerð ekki þekkt. Þrátt fyrir sjö ára takmörkunartíma er Matvælastofnun heimilt að aflétta einangrun þegar 75% hluti hjarðarinnar ber ARR/ARR og restin ARR/MV en þó aldrei fyrr en að liðnum tveimur árum frá niðurskurði og að önnur skilyrði hafi verið uppfyllt.
- Við ræktun skal eingöngu nota ARR/ARR hrúta á meðan takmarkanir gilda, auk hrúta sem bera MV/MV arfgerðir. Á árinu 2023 er þó einnig heimilt að nota hrúta sem bera ARR/x (x má ekki vera VRQ) og í undantekningatilvikum MV/x (x má ekki vera VRQ). Lömbum sem ekki bera ARR eða MV skal slátra.
- Aðkeyptir hrútar skulu vera ARR/ARR, en heimilt er að kaupa að lambgimbrar sem eru ARR/x (x má ekki vera VRQ).
- Framvísa skal til Matvælastofnunar öllu fé 18 mánaða og eldra sem drepst eða er aflífað á bænum og úr því skal taka heila- og eitlasýni. Jafnframt ber að upplýsa Matvælastofnun um vanhöld úr heimahögum eða af afrétti.
- Matvælastofnun er heimilt að leyfa flutning ARR/ARR hrúta frá bænum á aðra bæi innan varnarhólfs þar sem ekki er fé með næmar arfgerðir, þó ekki fyrr en að liðnum tveimur árum frá niðurskurði.
- Fé sem ber ARR/x og lömbum 3ja mánaða og yngri er heimilt að slátra án takmarkana.
- Fé sem ekki ber ARR og er eldra en 3ja mánaða er heimilt að senda til slátrunar að því tilskyldu að tekin séu heila- og eitlasýni og beðið niðurstöðu greininga áður en dreifing afurða er leyfð.
- Ásetningsfé sem ekki er ARR/ARR eða ARR/MV skal sérstaklega litamerkt (rauð merki), skv. 5. gr. reglugerðar nr. 651/2001.
- Á sjö ára takmörkunartímanum og á meðan enn er fé í hjörðinni í einangrun, er heimilt að setja á afrétt fé með ARR/ARR eða ARR/MV arfgerðir, en þó ekki fyrr en að liðnum tveimur árum frá niðurskurði.
Íbúafundur verður haldinn í Félagsheimilinu á Hvammstanga miðvikudaginn 13. desember kl. 13:00 – 14:30, þar sem þessi nýja nálgun á aðgerðum gegn riðu verður kynnt.