Fara í efni

Áburðareftirlit 2013

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Ársskýrsla um eftirlit með áburði árið 2013 er nú komin út og birt á vef Matvælastofnunar. Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:

Á árinu 2013 fluttu 26 fyrirtæki inn áburð alls 246 tegundir. Alls voru flutt inn 50.516 tonn af áburði af þeim voru 571 tonn af áburði frá Skeljungi endursend eftir að áburðurinn hafði verið innkallaður vegna of mikils kadmíums í honum. Á markaði voru því 49.945 tonn. Innlendir framleiðendur eru 14 á skrá, það eru fyrirtæki sem framleiða áburð eða jarðvegsbætandi efni á landinu. Áburðarfyrirtæki sem voru með skráða starfsemi á árinu eru því 40.

Sýnataka og vöruskoðun var gerð hjá 6 innflutningsfyrirtækjum og voru alls 48 áburðarsýni tekin á árinu. Auk þess voru merkingar og umbúðir skoðaðar.

Við efnamælingar kom í ljós að 17 áburðartegundir voru með meira frávik í efnainnihaldi en leyfilegt er samkvæmt ákvæðum reglugerða. Þar af voru 13 með of mikið kadmíuminnihald, 2 með of lítið köfnunarefni, 1 með of lítið kalí. Efnamælingar á einni áburðartegund gáfu mjög ólíkar niðurstöður og því var sýni af henni sent í 3 mælingar, sem allar gáfu gildi fyrir einhver næringarefni undir leyfðum vikmörkum. Þessar tegundir hafa verið teknar af skrá Matvælastofnunar.

Merkingar áburðarins hafa batnað frá fyrri árum og eru fáar athugasemdir gerðar þess vegna. Samræmi þarf að vera milli merkinga áburðar og hlutfalla efna sem gefin eru upp við skráningu hans. Merkingar áburðarins eiga að vera á íslensku og hlutföll næringarefna af þyngd skulu skráð á merkingar.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?