Fara í efni

Ársskýrsla MAST 2022

Árið í orðum

Árið 2022 var viðburðaríkt hjá Matvælastofnun. Stærsta verkefni stofnunarinnar var að breyta skipuritinu og uppsetningu verkefna. Nýtt skipurit stofnunarinnar var birt í júní og yfirstjórnarteymi stofnunarinnar breyttist þegar tveir nýir sviðsstjórar hófu störf hjá stofnuninni. Nýja skipuritið miðar að því að allt eftirlit stofnunarinnar verði hnitmiðað, málefnalegt og skilvirkt. Í kjölfarið var hafist handa við málefnastefnumótun (innan stofnunarinnar) þar sem ábyrgð stofnunarinnar var betur skilgreind, þ.e. hver er ábyrgð Matvælastofnunar og hver er ábyrgð viðskiptavina og þjónustuþega hennar. Því má segja að orð ársins sé ábyrgð. Ein af fyrstu ákvörðununum var að breyta kjörorðum stofnunarinnar í Við stöndum vörð um heilsu manna, dýra og plantna í stað þess sem áður var; Við verndum heilsu manna, dýra og plantna. Þessi breyting skýrir betur ábyrgðarsvið Matvælastofnunar en eitt af helstu verkefnunum fram undan er að kynna betur fyrir samfélaginu að ábyrgð á matvælaframleiðslu liggur hjá framleiðandanum sjálfum og ábyrgð á heilsu og velferð dýra liggur ávallt hjá eigandanum.

Dýravelferð var viðamikil innan stofnunarinnar en fjölmiðlaumfjöllun um stofnunina harðnaði seinni part ársins og vó þar þyngst umfjöllum um hross í Borgarfirði. Fjölmargir starfsmenn Matvælastofnunar stóðu í eldlínunni og unnu gríðarlega krefjandi starf við erfiðar aðstæður en sú vinna speglaðist því miður ekki nægilega vel inn í umræðu fjölmiðla og samfélagsmiðla. Óhætt er að segja að óvægin umfjöllun um störf og starfsmenn stofnunarinnar tók á allt starfsfólk þar sem erfitt var fyrir stofnunina að verja sig og sitt fólk og upplýsa um það óeigingjarna og erfiða starf sem starfsfólkið sinnir til að standa vörð um dýr sem brotið er á.

Öflug uppbygging og stefnumótun átti sér stað innan fiskeldisdeildar og fyrirséð að það verði ört stækkandi málefnasvið innan Matvælastofnunar. Stofnunin tók þátt í heildstæðri stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á fiskeldi og ljóst að byggja þarf upp innviði og eftirlit með greininni. Matvælastofnun mun taka þátt í þeirri uppbyggingu að skapa trausta umgjörð og stjórnsýslu sem heldur vel utan um vaxandi iðnað.

Fuglaflensa sem geisað hefur meðal annars í Evrópu greindist í fyrsta skiptið á Íslandi á árinu. Gríðarlega viðamikil söfnun sýna og greiningar voru framkvæmdar til að kortleggja útbreiðslu sýkingarinnar á Íslandi. Helsta forgangsverkefnið var að hindra að sýking bærist inn í alifuglaeldi en slíkt hefði alvarlegar afleiðingar. Sú vinna hefur borið árangur og enn hefur ekki greinst fuglaflensa í alifuglaeldi.

Umfangsmikið verkefni á ársinu var uppsetning og rekstur á einangrunarstöð fyrir gæludýr flóttamanna frá Úkraínu að beiðni Matvælaráðuneytisins. Byrjað var að taka við dýrum vorið 2022 og síðustu dýrin útskrifuðust seinni part ársins. Verkefnið gekk einstaklega vel, sér í lagi miðað við tímaramma og umfang, en að mörgu er að hyggja þar sem Úkraína er áhættuland fyrir hundaæði. Mikilvægt er að gæta að þessum vörnum til að tryggja að sjúkdómar berist ekki í íslensk dýr sem eru, sökum einangrunar landsins, viðkvæmari fyrir sjúkdómum sem hafa aldrei greinst hér.

Eftirlit

 Hér eru birtar gagnvirkar heildarniðurstöður eftirlits Matvælastofnunar eftir starfsgreinum 2022:

Eftirfarandi súlurit sýnir hlutfall skoðunaratriða sem metin voru í lagi í eftirliti á árinu 2022, eftir starfsgreinum:

Frammistaða

Rekstur

Aukning var á útgjöldum á árinu 2022 samanborið við fyrra ár en veltan var 2,01 milljarðar og þar af er framlag ríkisins rúmlega 1,5 milljarðar. Afkoma ársins var neikvæð sem nemur 204,2 mkr í samanburði við 22,2 mkr hagnað árið á undan en flest allir kostnaðarliðir hækkuðu verulega á milli ára. Laun og launatengd gjöld vega þar mest.

Þess má geta að flokkun tekna og gjalda í rekstrarreikningnum sem er hér meðfylgjandi er örlítið frábrugðin flokkun í birtum ársreikningi stofnunarinnar en þrátt fyrir það er niðurstaða ársins sú sama enda aðeins breyting á milli innri flokka.

Rekstur2022

Vöktun

Varnarefnaleifar í matvælum 

Matvælastofnun gerir árlega áætlun um sýnatökur vegna varnarefnaleifa, bæði í innfluttum matjurtum og innlendri ræktun. Framkvæmd sýnatöku og viðbrögð við niðurstöðum yfir hámarksgildum eru á hendi Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna sem skv. lögum fara með eftirlit með frumframleiðslu matjurta sem og með innflutnings- og dreifingaraðilum þeirra. Árið 2022 voru tekin 123 sýni en ekkert þeirra reyndist vera með varnarefnaleifar yfir leyfilegum hámarksgildum. Í meirihluta sýna (63%) greindust engar leifar efna en efni innan leyfilegra hámarksgilda greindust í 37% sýna. Til samanburðar reyndust 96,1% allra sýna í Evrópu vera innan marka árið 2021.

Varnarefnaleifar í matvælum – hlutfall sýna sem voru í lagi þ.e. án varnarefnaleifa eða með leifar undir hámarksgildum

Varnarefnaleifar í matvælum 2023

 

Efnaleifar í dýraafurðum

Efnaleifar í dýraafurðum 2022

Nánari upplýsingar er að finna undir Efnaleifar í dýraafurðum á vef Matvælastofnunar.

Skimun fyrir dýrasjúkdómum

Nánari upplýsingar er að finna á síðu um Dýrasjúkdómaskimun á vef Matvælastofnunar.

Súnur

Súnur2022

Nánari upplýsingar er að finna undir Súnur og sýklalyfjaónæmi á vef Matvælastofnunar.

Inn- og útflutningur

Innflutningur afurða

Matvælastofnun fer með eftirlit með innflutningi frá þriðju ríkjum af dýraafurðum og tilteknum eftirlitsskyldum matvælum sem ekki eru úr dýraríkinu.

Starfræktar eru fimm landamærastöðvar til móttöku á slíkum afurðum. Fjöldi sendinga jókst mikið í kjölfar þess að Bretland sagði sig úr Evrópusambandinu og varð þriðja ríki. Að sama skapi breyttist samsetning sendinga töluvert. Fram að því var mest um innflutning á fiskafurðum (löndun), m.a. til áframvinnslu en frá Bretlandi er töluvert flutt af tilbúnum matvælum, bæði kjöt- og mjólkurafurðum.

Fjöldi sendinga sem lúta eftirliti Matvælastofnunar á landamæraeftirlitsstöðvum á Íslandi.

 

 Innflutningur hunda og katta

Nokkur aukning hefur verið í innflutningi hunda og katta og árið 2022 voru 441 hundur og 143 kettir fluttir til landsins (auk 18 dýra á vegum flóttafólks). Leiða má að því líkur að heimsfaraldur Covid-19 hafi haft töluverð áhrif á innflutning árin 2020 og 2021. Tvær einangrunarstöðvar fyrir hunda og ketti eru starfræktar á Íslandi. Allir innfluttir hundar og kettir skulu uppfylla sérstök heilbrigðisskilyrði fyrir innflutning og dvelja svo 2 vikur í einangrun við komuna til landsins.

Í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu streymdi fjöldi flóttafólks frá Úkraínu til nálægra landa í Evrópu og talið er að 5-10% þeirra hafi haft gæludýr meðferðis. Framkvæmdastjórn ESB hvatti aðildaríki til þess að sýna sveigjanleika vegna þessa ástands og voru sérstakar ráðstafanir jafnan gerðar í hverju landi vegna móttöku þessara dýra. Á Norðurlöndum var ýmis konar eftirliti beitt, einangrun í einangrunarstöðvum, heimaeinangrun eða annars konar eftirliti þar sem megináhersla var/er á varnir gegn hundaæði. Hérlendis var brugðist við þessu neyðarástandi með þeim hætti að setja á laggirnar sérstaka einangrunarstöð. Fjöldi fyrirspurna barst MAST en svo varð úr að 12 hundar og 6 kettir á vegum flóttafólks frá Úkraínu voru fluttir til landsins. Dýrin dvöldu í einangrun í allt að 4 mánuði og að dvölinni lokinni höfðu þau uppfyllt hefðbundin skilyrði innflutnings (þessum innflutningi er haldið utan við tölulega samantekt um innflutning).

 Innflutningur_hundaogkatta_2022

Algengustu innfluttu hunda- og kattategundir árið 2022, svo og algengustu útflutningslönd. Eingöngu er heimilt að flytja inn hunda og ketti frá viðurkenndum útflutningslöndum eins og þau eru skilgreind í reglugerð um innflutning hunda og katta.

 Innflutn_hundaogkatta_teg_2022

 Annar eftirlitsskyldur innflutningur

Auk hunda og katta er annar innflutningur sem fellur undir lög um innflutning dýra, svo sem frjóegg, hundasæði, nautgripafósturvísar og svínasæði. Búrfuglar og nagdýr eru flutt inn af og til, alla jafna í tengslum við búferlaflutninga eigenda. Ýmis notuð landbúnaðartæki og áhöld geta borið með sér smitefni og skal slíkur innflutningur því lúta eftirliti og uppfylla sérstök skilyrði. Matvælastofnun hefur einnig eftirlit með innflutningi plantna, moldar og viðar sem geta borið með sér skaðvalda hættulega íslenskri náttúru.

 Annar innflutningur2022

Útgáfa útflutningsvottorða

Matvælastofnun gefur út heilbrigðisvottorð vegna afurða sem fluttar eru til þriðju ríkja, þ.e. dýraafurða og plantna. Stofnunin áritar auk þess vottorð vegna útflutnings gæludýra og hrossa. Alls voru 6759 vottorð gefin út/árituð árið 2022.

Fjöldi vottorða vegna útflutnings afurða/gæludýra sem gefin voru út á árinu

 Útflutningsvottorð2022

Útflutningur hrossa:

Á árinu voru 2084 hross flutt út.  Það voru 310 stóðhestar, 824 geldingar og 950 hryssur. 

Fjöldi útfluttra hrossa á árunum 2003-2022

Verkefni vegna sérmarkaða 2022

Misjafnt er hvaða kröfur ríki utan EES gera vegna útflutnings afurða og hvaða aðkomu Matvælastofnun, sem lögbært yfirvald á Íslandi, þarf að hafa um skráningu og vottun íslenskra framleiðenda hjá erlendum yfirvöldum. Erlend ríki eru í auknum mæli að taka upp skráningarskyldu fyrir framleiðendur sem hyggjast flytja inn afurðir, með misjöfnum forkröfum þó.

Þann 1. janúar 2022 tóku nýjar reglur um útflutning matvæla til Kína gildi. Samhliða nýju reglunum tóku kínversk tollyfirvöld skráningarkerfið CIFER í notkun fyrir erlenda framleiðendur matvæla. Kína hefur verið mikilvægasti útflutningsmarkaður fyrir íslenskar sjávarafurðir utan EES undanfarin ár og því fór mikið fyrir vinnu vegna skráningra íslenskra matvælaframleiðenda í Kína á árinu. Matvælastofnun hefur verið í reglulegum samskiptum við rúmlega 100 framleiðendur á árinu vegna þessa. Skráningarferlið, kröfur og umsýsla er orðin mun umfangsmeiri í kjölfar þessara breytinga.

Ábendingar og fyrirspurnir

Á árinu bárust til MAST 1790 ábendingar og 1968 fyrirspurnir. Með því að velja box má sjá ábendingar sér og fyrirspurnir sér, eftir flokkum og dýrategundum varðandi dýravelferð.

 

 

Uppfært 22.03.2024
Getum við bætt efni síðunnar?