Vöðvasullur í sauðfé
Vöðvasullur hefur greinst í fé frá nokkrum bæjum við heilbrigðiseftirlit á sláturhúsum. Þessi sullur er ekki hættulegur fólki en veldur tjóni vegna skemmda á kjöti. Um er að ræða blöðrur í vöðvum sem innihalda lirfustig bandorms sem lifir í hundum. Brýnt er fyrir hundaeigendum að láta ormahreinsa hunda sína.
Líkt og undanfarin ár hafa eftirlitsdýralæknar Matvælastofnunar á sláturhúsum fundið nú í haust vöðvasull (Cysticercus ovis) í sauðfé frá nokkrum bæjum. Greining hefur verið staðfest af sérfræðingum á Tilraunastöð HÍ að Keldum. Vöðvasullur er ekki hættulegur fyrir fólk en veldur tjóni vegna skemmda á kjöti og óþægindum fyrir féð.
Vöðvasullur eru blöðrur í vöðvum sauðfjár sem innihalda lirfustig bandormsins Taenia ovis, sem lifir í hundum og refum. Ef hundur étur hrátt kjöt sem inniheldur vöðvasull komast lirfurnar í meltingarveg hundsins þar sem þær verða að fullorðnum ormum. Egg ormanna fara út með saur hundsins og geta þaðan borist í sauðfé. Til að stöðva þessa hringrás er mikilvægt að hundaeigendur láti ormahreinsa hunda sína. Árleg ormahreinsun er lögboðin og á við um alla hunda, hvort sem er í sveit eða þéttbýli. Jafnframt vill Matvælastofnun beina þeim tilmælum til refaskyttna að leggja ekki út hræ af kindum fyrir refi.
Hringrás vöðvasullsbandormsins. Mynd fengin af vefsíðu Ovis Management Ltd