Fara í efni

Vörslusvipting hrossa vegna vanfóðrunar og vanhirðu

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Við eftirlit Matvælastofnunar með hrossahópi á Vesturlandi, sem metinn var í viðkvæmu ástandi, kom í ljós að kröfum um fóðrun hrossanna samhliða beit hafði ekki verið sinnt sem skildi. Stofnunin sendi umráðamanni hrossanna tilkynningu um vörslusviptingu mánudaginn 17. október og kom hún til framkvæmdar þriðjudaginn 18. október, með aðstoð lögreglu. Hrossin voru rekin að þar sem hægt var að skoða þau ítarlega og holdastiga. Stofnunin mat ástand 13 þeirra það alvarlegt að aðgerðir þyldu ekki bið. Þessi hross voru verulega aflögð (holdastig < 2,5) auk þess sem nokkur þeirra voru gengin úr hárum. Að teknu tilliti til árstíma var tekin sú ákvörðun að senda tólf hross samdægurs í sláturhús en eitt var aflífað á staðnum. Önnur hross reyndust vera í ásættanlegum holdum og var skilað til umráðamanns. Tíu þeirra eru þó enn metin í viðkvæmu ástandi (holdastig <3) og skulu njóta sérstakrar umhirðu. Málið er því enn til meðferðar hjá stofnuninni þar sem kröfum um úrbætur verður fylgt eftir.


Getum við bætt efni síðunnar?