Fara í efni

Vöktun á súnum 2019

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Salmonella jókst í alifuglum og svínum árið 2019 borið saman við árið áður en ekki var aukning á salmonellusýkingum í fólki. Mikil aukning var á veikindum af völdum eiturefnamyndandi E. coli (STEC) í fólki þegar hrina sýkinga kom upp s.l. sumar á Suðurlandi. Matvælastofnun hefur birt skýrslu um vöktun súna og sýklalyfjaónæmis 2019 á vef stofnunarinnar.  

Súnur eru sjúkdómar eða sýkingavaldar (súnuvaldar) sem smitast á milli manna og dýra. Eftirlit með salmonellu (Salmonella spp.) og kampýlóbakter (Campylobacter spp.) á fyrri stigum matvælakeðjunnar er öflugt hér á landi og skilar neytendum auknu matvælaöryggi. Aðrar matarbornar bakteríur valda sjaldnar sjúkdómi í fólki en í ljósi þess að um mjög alvarlega sjúkdóma getur verið að ræða er eftirlit með þeim bakteríum ekki síður mikilvægt. 

Tíðni salmonellu í alifuglaeldi, í sláturafurðum alifugla og svína jókst nokkuð frá fyrra ári. Aukningin var vegna endurtekinna smita á fáum búum þar sem erfitt hefur reynst að losna við tiltekna stofna bakteríunnar. Sambærilega aukningu var ekki að finna í fólki og gefur það vísbendingu um að vöktun í eldi og á sláturhúsum, samkvæmt landsáætlunum, lágmarki hættuna á að smit berist með alifugla- og svínakjöti í fólk. Heilgenarannsóknir sem framkvæmdar voru á árinu styðja þá niðurstöðu. Þó fannst salmonella í einu sýni úr innlendu svínakjöti á markaði sem minnir á að stöðugt þarf að vera á varðbergi og hvetja til réttrar meðhöndlunar á matvælum hjá neytendum. 

Engar marktækar breytingar komu fram á algengi kampýlóbakter í fólki eða í alifuglum og afurðum þeirra. Kampýlóbakter greindist í þremur sýnum af frosnu kjúklingakjöti á markaði (2,1% sýna), sýni tekin bæði af innlendu og erlendu kjöti. Í öllum tilfellum var um að ræða mjög litla bakteríumengun eða undir greiningarmörkum (<10 cfu/g) með talningaraðferð, enda drepst kampýlóbakter að mestu í frosti. 

Mikil aukning var á veikindum í fólki vegna sýkinga af völdum eiturefnamyndandi E. coli (STEC) sem skýrist fyrst of fremst af hrinu sumarið 2019 þar sem 22 börn og 2 fullorðnir sýktust. Fram til þessa hefur tíðni þessarar sýkingar verið mjög lág í fólki hér á landi, eitt til þrjú tilfelli á ári. Niðurstöður faraldsfræðilegrar rannsóknar á hrinunni og skimana sem framkvæmdar voru 2018 og 2019 fyrir STEC í kjöti á markaði benda til að bakterían sé hluti af örveruflóru íslenskra nautgripa og sauðfjár. Rannsaka þarf þó betur algengi STEC í búfé og skerpa á fyrirbyggjandi aðgerðum í sláturhúsum og kjötvinnslum til að minnka líkur á að STEC berist í kjötið. Ennfremur þarf að koma í veg fyrir að óhreinir gripir komi í sláturhús. 

Listería (Listeria monocytogenes) finnst reglulega í þekktum áhættuafurðum og framleiðsluumhverfi þeirra. Á árinu hófst átaksverkefni sem felst í sérstöku eftirliti með matvælafyrirtækjum sem framleiða matvæli tilbúin til neyslu, með áherslu á reyktar og grafnar lagarafurðir, osta og kjötálegg. Farið er sérstaklega yfir sýnatökuáætlun fyrirtækja og fyrirbyggjandi aðgerðir þeirra gegn listeríu. 

Við innflutningseftirlit með dýraafurðum frá löndum utan EES eru reglulega tekin sýni til greininga á salmonellu, listeríu (L. monocytogenes) og E. coli. Á árinu 2019 voru tekin sýni úr sendingum af hrognum, soðinni rækju, mysudufti, kjötafurðum (tilbúnum kjúklingaréttum) og gæludýrafóðri. Sýnin reyndust öll neikvæð. 

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?