Fara í efni

Sýnatökur í Efstadal II

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Við rannsókn á hrinu sýkinga meðal barna sem höfðu það sameiginlegt að vera í Efstadal II hafa Heilbrigðiseftirlit Suðurlands (HSL), Matvælastofnun og rekstraraðilar Efstadals II tekið fjölmörg sýni til að reyna að varpa ljósi á orsök sýkinganna. Samtals voru tekin 41 sýni af matvælum og umhverfi í ísgerð og íssölu og 25 sýni úr dýrum og umhverfi þeirra. Sýkingarnar í fólkinu voru af völdum eiturmyndandi E. coli (STEC) af sermisgerðinni O026 en sú sermisgerð fannst einungis í dýrum og umhverfi þeirra á bænum. 

  • HSL tók 12 sýni af ís, 11 sýni af kúluís og eitt sýni af ís úr ísvél. Ísinn var framleiddur 12. júní, 26. júní, 28. júní og 4. júlí. Í einu sýni frá 28. júní greindist STEC meinvirknigen (stx1). Í einu sýni af kúluís frá 4. júlí greindist STEC en þó ekki af sermisgerðinni O026. Önnur sýni voru neikvæð með tilliti til STEC. Sýnatökur fóru fram dagana 26. júní, 4. júlí, 11. júlí og 15. júlí. 
  • Þann 4. júlí tók HSL sýni af fetaosti og skyri sem framleitt var í Efstadal II. STEC greindist ekki í sýnunum. Einnig voru tekin 4 sýni af neysluvatni í Efstadal II og sumarhúsabyggð í nágrenni Efstadals. Öll vatnsýnin uppfylltu kröfur um neysluvatn og neikvæð með tilliti til STEC. 
  • Þann 11. júlí tók HSL 11 stroksýni af umhverfi í ísgerð og íssölu. STEC greindist ekki í sýnunum. 
  • Þann 18. júlí tók HSL 3 sýni, eitt af kúluís frá Kjörís sem var til sölu í Efstadal II frá 5. Júlí - 18. júlí, eitt af flugum í flugugildru í íssölunni og eitt sýni af brauðformum. Öll sýni voru neikvæð með tilliti til STEC. 
  • Efstidalur II framleiddi ís til prufu 6. og 7. júlí og sendu 8 íssýni til rannsóknar. STEC greindist ekki í sýnunum. Ísinn fór þó ekki í sölu. Einnig var eitt sýni af hrámjólk sent til rannsóknar og reyndist einnig neikvætt með tilliti til STEC. 
  • Þann 4. júlí tók Matvælastofnun sýni frá dýrum í Efstadal II. Tekin voru 3 safnsýni af saur, úr fjósi, kálfastíu og innan girðingar þar sem lömb og grís voru. Í sýni úr kálfastíu greindist E. coli O026. Raðgreining á erfðaefni sýndi að sami stofn af E. coli O026 greindist í sjúklingum.
  • Þann 22. júlí tók Matvælastofnun 22 sýni frá dýrum og umhverfi í Efstadal II og af öðrum bæ sem hafði selt kálfa til Efstadals II. Í 21 sýni fundust STEC og í sjö sýnum af þeim fannst erfðaefni O026, þar af fjögur frá Efstadal II. Það tókst að einangra E. coli O026 í tveimur sýnum af sjö. Þau sýni voru tekin úr nautahúsi að Efstadal II. Síðar verður gerð raðgreining á erfðaefni bakteríunnar og kemur þá í ljós hvort um sé að ræða sama stofn og greindist í kálfum og börnum. Ekki tókst að rækta upp E. coli O026 á bænum sem seldi Efstadal II kálfana. 

Ekki er ljóst hvernig smit frá dýrum hefur borist í þá sem veiktust. Samkvæmt viðtölum við sjúklinga og aðstandendur borðuðu allir sem veiktust ís. Ekki greindist E. coli O026 í þeim sýnum sem voru tekin af ís, í ísgerðinni og í íssölunni. Hinsvegar greindist meinvirknigen og önnur sermisgerð E. coli eða O015 í tveimur íssýnum og bendir það til þess að ísinn gæti hafa mengast á einhvern hátt frá umhverfi eða starfsfólki. Einnig getur verið að smit hafi verið á höndum sjúklingana eftir snertingu við t.d. kálfa eða hluti í umhverfi og þannig borist í ís eða upp í þá. 

E. coli er hluti af náttúrulegri flóru dýra og manna og sumir stofnar E. coli bera meinvirknigen. Stofnarnir geta þó verið mis sjúkdómsvaldandi. Matvælastofnun greindi nýlega frá tilvist sjúkdómsvaldandi baktería í kjöti á markaði á Íslandi. Þar kom fram að STEC meinvirknigen finnast í 30% sýna af lambakjöti og 11,5% sýna af nautgripakjöti.

Matvælastofnun 

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands


Frétt uppfærð 07.08.15 kl. 12:30. Það greindist STEC meinvirknigen í öðru íssýni og sermisgerðin í kúluísnum var O015 en ekki O115. 

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?