Fara í efni

Viðvörun vegna þörungaeiturs í Hvalfirði

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í sumar hafa Matvælastofnun og Hafrannsóknarstofnun annast vöktun á eiturþörungum í Hvalfirði eins og undanfarin ár. Í ljósi niðurstaðna vöktunar vill Matvælastofnun benda fólki á að neyta alls ekki kræklings eða annarra skeltegunda úr Hvalfirði,  þar sem allar líkur eru á að þær séu mjög eitraðar.

Niðurstöður vöktunarinnar sýna að mikil aukning varð á eiturþörungum í Hvalfirði frá seinni hluta ágústmánaðar fram í september og var fjöldi eiturþörnunga af ættkvíslinni Dinophysis rúmlega fimmfalt hærri en áður hefur sést við strendur Íslands. Dinophysis þörungar orsaka “DSP eitrun” eða niðurgangseitrun og hefur þessi gerð þörunga fundist árlega í Hvalfirði. Þrátt fyrir að fjöldi Dinophysis þörunga hafi lækkað í síðustu mælingu um miðjan október þá eru þeir enn langt yfir viðmiðunarmörkum og  má búast við að kræklingur og aðrar tegundir sem geta tekið í sig þörungaeitur verði eitraðar í allan vetur. Þetta á við Hvalfjörð en ekki er sama ástand á öðrum ræktunarsvæðum.

Þegar vöktun hófst í júni s.l. var magn DSP þörungaeiturs mælt og reyndist það vera 469 µg/kg eða  þrefalt yfir viðmiðunarmörkum en þau eru 160µg/kg. Nýtt sýni verður sent til greiningar á DSP þörungaeitri  á næstu dögum og kemur þá ljós hversu mikið eitur er að finna í skelfiski í Hvalfirði.

Matvælastofnun fylgist með eiturþörungum í sjó og þörungaeitri í skelfiski og má sjá niðurstöður vöktunar á vef stofnunarinnar undir "Eftirlitsniðurstöður - Skelfiskur". Ekki er sama ástand á öðrum ræktunarsvæðum. Veitingahús og verslanir mega ekki taka á móti kræklingi nema hann komi frá viðurkenndu veiði- eða ræktunarsvæði og sé pakkað í afgreiðslustöð. Matvælastofnun ítrekar fyrir þessum aðilum að tryggja að svo sé til að neytendur getið gengið að því sem vísu að skelfiskur í verslunum og á veitingahúsum sé af viðurkenndum og vöktuðum ræktunarsvæðum.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?