Viðvörun vegna þörungaeiturs aflétt
Matvælastofnun og Hafrannsóknastofnun önnuðust vöktun á eiturþörungum í Hvalfirði s.l. sumar eins og undanfarin ár. Viðvörun vegna þörungaeiturs og viðvarandi eiturþörunga í sjó hefur staðið frá því í júní síðastliðnum og var ástandið sérstaklega viðsjárvert í haust vegna mikils magns eiturþörunga í sjó.
Í ljósi niðurstaðna vöktunar á eiturþörungum og nýjustu niðurstöðu mælinga á þörungaeitri telur Matvælastofnun ekki ástæðu til að vara við neyslu skelja úr Hvalfirði. Niðurstaða greiningar á þörungaeitri leiddi í ljós að ASP var ekki til staðar og DSP sem hefur verið viðvarandi í Hvalfirðinum er komið niður fyrir viðmiðunarmörk. Í sýni frá 24. október síðastliðnum mældist 150µg/kg af DSP eitri í kræklingi en viðmiðunarmörkin eru 160 µg/kg. Fjöldi eiturþörunga eru einnig komnir niður fyrir viðmiðunarmörk samkvæmt síðustu mælingu og í ljósi þessa afléttir stofnunin viðvörunum af Hvalfirðinum.
Matvælastofnun vill þó benda fólki á að fara varlega í ljósi þess að stutt er síðan magn eiturþörunga mældist hærra en nokkru sinni fyrr í firðinum. Eiturmagnið er nánast á viðmiðunarmörkum og gæti magn þörungaeiturs breyst ef fjöldi eiturþörunga eykst aftur í firðinum.
Niðurstöður vöktunar Matvælastofnunar á eiturþörungum í sjó og þörungaeitri í skelfiski má sjá á vef stofnunarinnar undir "Eftirlitsniðurstöður - Skelfiskur". Ekki hefur verið sama ástand á öðrum ræktunarsvæðum.
Veitingahús og verslanir mega ekki taka á móti kræklingi nema hann komi frá viðurkenndu veiði- eða ræktunarsvæði og sé pakkað í afgreiðslustöð. Matvælastofnun ítrekar fyrir þessum aðilum að tryggja að svo sé til að neytendur getið gengið að því sem vísu að skelfiskur í verslunum og á veitingahúsum sé af viðurkenndum og vöktuðum ræktunarsvæðum.