Fara í efni

Viðvörun vegna efna sem sögð eru örva heilastarfsemi

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun varar við neyslu á efnum í netsölu sem sögð eru örva heilastarfsemi, sk. Nootropics. Neysla slíkra efna getur haft alvarleg heilsuáhrif vegna lyfjavirkni þeirra, auk þess sem innflutningur þeirra sem fæðubótarefni eða matvæli er ólöglegur.

Innflutningur á efnum sem hafa það að markmiði að efla heilastarfsemi hjá heilbrigðum einstaklingum, svokölluð Nootropics, hafa aukist til muna undanfarin ár. Mörg ólík efni tilheyra flokki Nootropics og eru þau oft markaðssett sem fæðubótarefni. Í netverslunum finnast þau einnig undir flokki sem kallast „cognitive enhancers“, „smart supplements“ eða jafnvel „smart drugs“ og geta verið bæði tilbúin (synthetic) eða „náttúruleg“ efni. Þar sem engin opinber skilgreining er til um Nootropics er erfitt að segja hvaða efni falla í raun og veru undir þennan flokk. Mörg af þessum efnum eru notuð sem innihaldsefni í lyfjum í flokki hughvetjandi geðlyfja (psycoanaleptics), þ.e. örvandi lyf, til meðferðar við ADHD en önnur efni tilheyra flokki þunglyndislyfja.

Í auglýsingum og annarskonar markaðssetningu á Nootropics eru oft notuð hugtök sem miðast við að bæta m.a. minni (memory), sköpunargáfu (creativity), einbeitingu (concentration) eða vera hvetjandi (motivation) hjá heilbrigðu fólki. Þetta virðist vera aðlaðandi í síbreytilegu samfélagi sem byggir gjarnan á samkeppni. Þó markaðssetning gangi út á að bæta skilvit (cognition) hjá heilbrigðum einstaklingum eru engar (eða fáar) rannsóknir til, sem styðja staðhæfingar framleiðenda. Vaxandi notkun þessara efna veldur áhyggjum því ekki er vitað með vissu hvaða áhrif langtíma notkun þeirra hefur á líkamann og heilastarfsemi.

Matvælastofnun sinnir innflutningseftirliti með fæðubótarefnum og hefur stöðvað innflutning allskyns efna sem markaðssett eru undir heitinu Nootropics. Sum þeirra eru framleidd og markaðssett sem fæðubótarefni, en önnur ekki og því er oft óvissa um hvoru megin þessi efni falla, þ.e. lyfjalög eða matvælalög. Þrátt fyrir þetta hefur stofnunin nýtt sér 11 gr. matvælalaga til að stöðva svokölluð Nootropics en þar stendur að “óheimilt er að flytja til landsins eða markaðssetja matvæli, þ.m.t. fæðubótarefni, sem innihalda lyf samkvæmt skilgreiningu lyfjalaga. Leiki vafi á því hvort einstök efnasambönd teljist lyf sker Lyfjastofnun úr”.

Hérna er listi (ekki tæmandi) yfir efni sem hafa komið í póstsendingum, aðallega til einkanota, undanfarið ár og eru markaðssett sem fæðubótarefni og/eða Nootropics og pöntuð af neytendum sem slík en eru innihaldsefni í lyfjum og með ATC flokk N*:

  • Tianeptine
  • Phenyl-Piracetam
  • Phenibut
  • Adrafinil
  • Piracetam
  • Oxiracetam
  • Vinpocetine 

Matvælastofnun vill vekja athygli á því að innflutningur á þessum efnum er ekki bara óheimill sbr. 11 gr. matvælalaga, heldur er notkun þeirra varasöm. Notkun á efnum sem hafa lyfjafræðilega virkni fyrir ákveðinn sjúkdóm, eins og er með flest af þessum efnum, án þess að ráðfæra sig við lækni er hættuleg. Þar að auki, eins og nefnt er að ofan, eru áhrifin óþekkt og eru mögulega skaðleg til langtíma hjá heilbrigðum einstaklingum.

*ATC Flokkur er flokkunarkerfi lyfja og í flokki N eru lyf sem hafa áhrif á taugakerfið (Nervous system)


Getum við bætt efni síðunnar?