Fara í efni

Vitundarvika um skynsamlega notkun sýklalyfja

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Dagana 18-24. nóvember 2019 er alþjóðleg vitundarvika um skynsamlega notkun sýklalyfja.

Sýklalyf eru notuð til að meðhöndla sýkingar af völdum baktería í mönnum og dýrum. Röng og óhófleg notkun á sýklalyfjum getur leitt til þess að bakteríur myndi þol gegn sýklalyfjum og geta slíkar bakteríur borist á milli manna, dýra og umhverfis. Ef sýklalyfjaónæmi heldur áfram að aukast þá verður erfiðara að meðhöndla marga sjúkdóma hjá mönnum og dýrum. Sýklalyfjaónæmi er ógn sem steðjar að allri heimsbyggðinni og til að berjast gegn þessari vá þarf að taka höndum saman úr öllum áttum - hjá mönnum, dýrum, matvælum og umhverfi. Við höfum öll hlutverki að gegna í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi og hefur Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunin (OIE) sett í loftið vefsíðu sem fjallar um skynsamlega notkun sýklalyfja þar sem hægt er að finna ábendingar um hvað dýraeigendur, dýralæknar, yfirvöld, lyfjaframleiðendur, fóðurframleiðendur og heildsalar geta gert til að stuðla að skynsamlegri notkun sýklalyfja. Þar er einnig að finna próf sem dýraheilbrigðisstarfsmenn og dýraeigendur geta spreytt sig á til að kanna þekkingu sína á sýklalyfjum. 

Starfshópur með yfirdýralækni, sóttvarnalækni og sérfræðingi Keldna innanborðs skilaði árið 2017 tillögum um aðgerðir til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería hér á landi. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og heilbrigðismálaráðherra undirrituðu 8. febrúar sl. yfirlýsingu um sameiginlegt átak til að draga úr þessari útbreiðslu. Með yfirlýsingunni urðu tillögur starfshópsins að opinberri stefnu íslenskra stjórnvalda í baráttunni gegn þessari vaxandi ógn. Í lok maí greindi Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, frá því að ríkisstjórnin hefði samþykkt aðgerðir í málaflokknum að tillögu Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra. Aðgerðirnar voru unnar af stýrihópi beggja ráðherra þar sem áttu sæti m.a. sóttvarnalæknir og yfirdýralæknir, og voru aðgerðirnar mótaðar út frá tillögum starfshópsins. Nú þegar er vinna samkvæmt aðgerðaráætluninni hafin.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?