Vitundarátak og áherslur í eftirliti í kjölfar STEC sýkingar
Í október 2024 kom upp stór hópsýking á leikskóla af völdum shigatoxín myndandi E. coli (STEC) í nautgripa- og lambahakki. Í ferli málsins kom í ljós að nauðsynlegt væri að skerpa á þekkingu og meðvitund almennings og matvælaframleiðenda um mikilvægi réttrar meðhöndlunar á kjöti m.t.t. E. coli. Að því tilefni ákváðu Matvælastofnun (MAST) og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga (HES) að setja af stað tímabundið átaksverkefni sem snýr að aukinni vitund í samfélaginu og áherslum í eftirliti varðandi E. coli í kjöti. Verkefnið mun ná yfir 2 ár og niðurstöður þess verða birtar í skýrslu á heimasíðu MAST.
Við framleiðslu og framreiðslu kjöts bera allir í keðjunni, allt frá bónda til neytanda, ábyrgð á að tryggja matvælaöryggi, þ.m.t. að lágmarka E. coli mengun. Hreinir gripir þurfa að koma frá bónda, matvælaöryggiskerfi sláturhúsa og annarra matvælafyrirtækja þurfa að vera skilvirk og meðferð matvæla við matreiðslu þarf að vera rétt. Til að tryggja að svo sé þarf að vera til staðar fullnægjandi þekking og viðeigandi verkferlar.
Átaksverkefni MAST og HES beinist því að auka þekkingu og stuðla að bættum verkferlum fyrirtækjanna. Meginmarkmiðið með þessu er að minnka líkur á að sjúkdómsvaldandi E. coli (t.d. STEC (shigatoxín myndandi E. coli)) berist með kjöti í fólk, einkum börn og aðra viðkvæma hópa. Verkefnið kallar einnig á gerð og endurskoðun tiltekinna leiðbeininga. Vinna við framkvæmd átaksverkefnisins er hafin.
Vitundarátak
- Samráðsfundir með bændum vegna hreinleika gripa
- Markviss birting á fræðslu um meðferð kjöts og ábyrgð matvælafyrirtækja á fræðslu og þjálfun starfsmanna sinna
- Skoða möguleika á auknum kröfum um merkingar varðandi eldun á kjöti
- Skoða möguleika á skýrari kröfum til menntunar þeirra sem starfa við framleiðslu og dreifingu matvæla
Áherslur í eftirliti MAST og HES
- Verklag sláturhúsa við óhreinum gripum
- Rýni á niðurstöðum E. coli greininga skv. regluverki í sláturhúsum og kjötvinnslum
- Verkferlar fyrirtækja m.t.t. STEC og viðkvæmra neytendahópa
- Meðferð kjöts (m.a. kæling, þíðing, eldun og upphitun)
- Þjálfun og fræðsla starfsmanna stóreldhúsa, einkum þeirra sem meðhöndla matvæli fyrir viðkvæma neytendur
E. coli
E. coli bakteríur eru hluti af náttúrulegri þarmaflóru manna og dýra og geta borist í vatn, kjöt, grænmeti og önnur matvæli á öllum stigum framleiðslu þeirra. Mismunandi tegundir E. coli eru til en flestar eru skaðlausar. STEC er sérstök tegund E. coli sem getur í sumum tilfellum valdið alvarlegum veikindum.
Samkvæmt löggjöf um kjötframleiðslu er ekki gerð krafa til framleiðenda að allt kjöt sé laust við E. coli áður en það fer á markað. Hins vegar eiga kjötframleiðendur að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að minnka líkur á mengun á skrokkum og kjötvörum í ferlinu. Sýnatökur í ferlinu miðast því við að kanna hvort vinnubrögð séu fullnægjandi.