Fara í efni

Vírus í tómatrækt

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Síðastliðinn föstudag greindi Bændablaðið frá vírussýkingu í íslenskri tómatarækt, en smit hefur verið staðfest á þremur býlum. Vírusinn ber nafnið Pepino mósaík vírus og er af ættkvísl Potexvírusa. Vírusinn er ekki skaðlegur mönnum. Uppruna vírussins má rekja til Perú árið 1974 þar sem hann herjaði á innlenda rækt af Solanum muricatum. Fyrstu tilfelli í Evrópu greindust árið 1999 í gróðurhúsarækt tómata í Hollandi og Bretlandi. Síðan hefur vírusinn greinst víða um Evrópu. Í dag hafa verið greind 5 sýkingarafbrigði, þrjú þeirra finnast í Evrópu.

Ekki er ástæða til að ætla að vírusinn breiðist út fyrir gróðurhúsarækt tómata og er hann sem fyrr segir ekki skaðlegur mönnum.

Pepino mósaík vírusinn er nokkuð útbreiddur og bráðsmitandi. Helst dreifist vírusinn með snertingu (hendur, föt og áhöld) en getur einnig dreifst utan á fræi og býflugum (Bombus terrestris) sem gjarnan eru notaðar til frjóvgunar í gróðurhúsum. Aðrar leiðir dreifingar geta verið sýktar ungplöntur, afskornir plöntuhlutar, pökkunarefni og tómatar. Talið er að vírusinn geti haldið sýkingarhæfni á fatnaði í að minnsta kosti 14 daga og í plöntuefni allt að 3 mánuði.

Einkenni sýkingar geta breyst milli árstíða og eru gjarnan sýnilegri yfir haust og vetur þegar ljós er minna. Yfir sumartíma geta sýktar plöntur hæglega verið lausar við einkenni. Einkenni geta verið breytileg en eru meðal annars dvergvöxtur, gult mynstur á laufblöðum, skemmdir á laufblöðum, gult mósaík mynstur á ávöxtum og ójafn vöxtur. Ekki er ljóst hversu mikið tjón og afföll fyrir ræktun fylgja sýkingu.

Þar sem mikilvægt er að takmarka útbreiðslu vírussins vil Matvælastofnun beina því til ræktenda jafnt sem almennings að gæta fyllsta hreinlætis þegar komið er og farið frá ræktunarstöðum. Mælt er með því að geyma fatnað, sem komist hefur í snertingu við plöntur, á ræktunarstaðnum. Ekki er æskilegt að færa áhöld og fatnað milli gróðurhúsa jafnvel þó smit sé ekki sýnilegt. Hlífðarfatnaður og skóbúnaður sem ekki fer úr gróðurhúsi, jafn sem einnota hlífðarfatnaður, gegna miklu hlutverki við takmörkun útbreiðslu. Gæta þarf að því að góð aðstaða sé til fataskipta og koma í veg fyrir krossmengun. Sóttvarnarmottur við inn- og útganga eru einnig gagnlegar sem og sótthreinsun áhalda.

Veiran er nokkuð rannsökuð og má nálgast frekari upplýsingar á vefsvæði CABI. 

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?