Fara í efni

Viðbrögð við smitandi hósta í hrossum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

 


  Eins og fram hefur komið var dýralækni hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun tilkynnt um smitandi hósta í hrossum á Hólum í Hjaltadal hinn 7. apríl sl. Þeirri tilkynningu fylgdu upplýsingar um að veikin hefði sennilega mallað eitthvað en örguggustu tilfellin voru hestar sem komu til Hóla nokkru fyrir páska en veikin breiddist mjög greinilega út frá þeim. Við athugun kom í ljós að veikin var þá þegar komin á margar stórar tamningastöðvar á suðurlandi. Varlega áætlað hafði smitið verið í gangi í 3 til 4 vikur, hugsanlega miklu lengur, og á þeim tíma hafði fjöldinn allur af hrossum verðið fluttur til og frá þessum tamningastöðvum. Það var því ljóst frá byrjun að útbreiðsla veikinnar yrði ekki stöðvuð.

Tekin var ákvörðun um að virkja ekki þá viðbragðsáætlun sem til er fyrir alvarlega smitsjúkdóma í hrossum. Bæði var það vegna þess að hún myndi skila takmörkuðum árangri þar sem smitdreifing var þegar orðin mjög mikil og einnig vegna þess að ekki var talið að um alvarlegan sjúkdóm væri að ræða. Þó komið hafi í ljós að hrossin eru lengur veik en ætlað var í byrjun, hefur það mat ekki breyst.

Auk þeirra einkenna sem áður er lýst (hósti, nefrennsli, slappleiki) hefur nánari skoðun með speglun nú sýnt vægar slímhúðarbreitingar í efri öndunarvegi þ.e. koki, nefholi og barka (Helgi Sigurðsson og Vilhjálmur Svansson 6. maí 2010). 

Það sem einkennir þessa veiki er hversu lúmsk hún er til að byrja með í hverju nýju húsi og menn eiga oft erfitt með að gera sér grein fyrir hvenær hún hafði byrjað á hverjum stað. Þannig líða oft 2-3 vikur frá því einstaka hross sýnir væg einkenni þar til öll hrossin í húsinu eru orðin veik. Bendir það til  að um  væga veirusýkingu sé að ræða sem þurfi að magnast upp áður en hún nær að valda hópsýkingu.

Veikin virðist leggjast harðar á hross í mikilli þjálfun og mjög mikilvægt er að hvíla hross um leið og vart verður við fyrstu einkenni hvort sem það er hósti, slappleiki eða nefrennsli.

Sýni voru tekin strax og tilkynningin barst, bæði blósýni og stroksýni úr nefi og þau send til greiningar á Keldum og Dýralækningastofnun Svíþjóðar.  Því miður hefur ekki tekist að greina frumorsökina en búið er að útiloka alvarlegustu veirurnar, s.s. hestainflúensu (og reyndar allar gerðir af inflúensu), og alvarlegar herpessýkingar (EHV1). Bakteríusýkingar fylgja oftar en ekki í kjölfarið með graftarkenndum hor og jafnvel hita og eiga þær hugsanlega mikinn þátt í  hversu hægur batinn er.

Gefin var úr tilkynning um sjúkdóminn á netmiðlum hestamanna 13. apríl sem fylgt var eftir með nánari leiðbeiningum 19. og 28. apríl. Stöðumat var svo birt 4. maí. Greinar þessar hafa einnig birst á heimasíðu Matvælastofnunar,  www.mast.is. Auk þess hafa birst viðtöl við undirritaða og Halldór Runólfsson yfirdýralækni í Fréttablaðinu, Morgunblaðinu og á útvarpsstöðvum.

Þó ekki sé um mjög alvarlega veiki að ræða kemur hún á afar vondum tíma og veldur miklu tjóni á allri hestatengdri starfsemi. Það er ekki nema eðlilegt að menn spyrji hvort hægt hefði verið að draga úr því tjóni með einhverjum aðgerðum. En þegar við stöndum frammi fyrir svo mikilli smitdreifingu áður en sjúkdómurinn uppgötvast og svo löngum og lúmskum meðgöngutíma að enginn veit hvaða hross eru í raun smituð, er fátt til ráða annað en að hugsa vel um hrossin og bíða eftir að veikin gangi yfir. Bakteríusýkingar sem koma í kjölfarið er hægt að meðhöndla en af gefnu tilefni skal tekið fram að ekki er hægt að bólusetja gegn sjúkdómi sem ekki er þekktur og ekkert bendir til að lyfjagjöf til að örva ónæmiskerfið sé annað en skot í myrkri.

Flest hross á hinum þéttbýlli svæðum landsins hafa væntanlega orðið fyrir smiti nú þegar. Margt bendir þó til að smitmögnunin minnki með vorinu, m.a. með aukinni útiveru hrossa, og þar með dragi úr einkennum sjúkdómsins.  Öll meðferð mun þar hafa mikil áhrif, einkum góð hvíld. Þeir sem enn telja sig eiga ósmituð hross eru hvattir til að verja þau fram á sumarið í von um að þau sleppi alveg við veikindi.

Vonast er til að faraldurinn verði að miklu leyti gengin yfir um mánaðarmótin júní – júlí þegar Landsmót hestamanna verður haldið á Vindheimamelum í Skagafirði.

Ítarefni
Getum við bætt efni síðunnar?