Fara í efni

Verulegar framfarir á gyltubúum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Úttekt Matvælastofnunar á gyltubúum í vor leiddi í ljós að básahald gyltna og geldingar grísa eru á undanhaldi og bógsárum á gyltum hefur fækkað og eru nú vægari en áður. Stofnunin hefur unnið úr niðurstöðum eftirlits sem fram fór í apríl og maí 2016 og gefið út samantekt.

 

Farið var í eftirlit á öll svínabú landsins sem halda gyltur, alls 14 bú. Eftirlitið var framkvæmt af dýralækni í viðkomandi umdæmi sem og sérgreinadýralækni svínasjúkdóma. Metið var hvort ákvæði laga nr. 55/2013 um velferð dýra og ákvæði núgildandi reglugerðar nr. 1276/2014 um velferð svína væru uppfyllt. Sambærileg úttekt var framkvæmd árið 2014 en þá var tekið mið af þágildandi reglugerð nr. 353/2011. 

Umskipti hafa átt sér stað milli áranna 2014 og 2016 varðandi geldingar grísa, séu grísir geltir þá er það framkvæmt í samræmi við ákvæði laga og reglna. Fækkun geldinga er fagnaðarefni. Bændur hafa í auknum mæli lagt af geldingar eða tekið upp bólusetningu gegn galtarlykt. Halaklippingar eru á undanhaldi, það tekur þó tíma að geta lagt af halaklippingar á búum almennt því varnir gegn halabiti eru nátengdar breytingum á aðbúnaði grísanna. Stakkaskipti hafa orðið á básahaldi gyltna, rúmur þriðjungur búa hafa allar gyltur í lausagöngu, rúmur þriðjungur búa eru með lausagöngu að hluta og unnið er að afnámi básahalds hjá öllum sem enn nota bása. Bógsárum hefur fækkað og eru þau einnig vægari en áður. Litlar breytingar hafa orðið á gotstíum, gotbásum og gólfefnum á flestum búanna, en slíkar breytingar eru kostnaðarsamar og mun það taka tíma að breyta öllum búum þannig að þessi atriði standist kröfur. Aðilar hafa fengið frest til að uppfylla kröfur, sbr. bráðabrigðaákvæði reglugerðar nr. 1276/2014, en samfara þeim úrbótum skapast betri möguleikar á að uppfylla kröfur um undirburð.

Niðurstöður sem fram koma í samantektinni gefa yfirsýn yfir stöðu mála á gyltubúum á Íslandi árið 2016 er varða geldingar, halaklippingar, básahald og almennan aðbúnað. Myndir í samantektinni gefa innsýn í þróun mála og lýsa tilteknum atvikum/aðbúnaði en gefa ekki heildarmynd af viðkomandi búum.


Ítarefni: 



Getum við bætt efni síðunnar?