Verslun með fé
Nú er tíminn þar sem helst er stunduð verslun með sauðfé og geitfé – í flestum tilfellum ásetningslömb. Mjög mikilvægt er að hafa í huga að ákveðnar reglur gilda varðandi flutning sauðfjár bæði innan varnarhólfa og milli þeirra. Reglur þessar eru settar til þess að hindra útbreiðslu sjúkdóma og ber riðuveikina þar hæst. Það er staðreynd að riðuveiki hefur einkum borist milli bæja með verslun með lifandi fé, sér í lagi hrúta.
Mikilvægt er að stunda ábyrgar sóttvarnir. Handþvottur og stígvélaþvottur er mjög mikilvægur þegar farið er á milli búa. Þrif og sótthreinsun flutningatækja sem notaður er til flutninga á fé er ekki síður mikilvægur.
Skrá skal alla flutninga og tryggja að hjarðbók gefi rétta mynd af stöðu hjarðarinnar og halda skal vel utan um sjúkdóma- og lyfjaskráningar.
Yfir varnarlínu má eingöngu flytja lömb frá líflambasölusvæðum með leyfi frá Matvælastofnun, sem sótt er um í gegnum þjónustugátt á heimasíðu stofnunarinnar. Á heimasíðunni er einnig að finna lista yfir þá bæi sem hafa söluleyfi fyrir lömb eða kið.
Líflambasölusvæði
Líflambasölusvæðin eru fjögur:
- Snæfellsneshólf
- Vestfjarðahólf eystra
- Norðausturhólf (N-Þingeyjarsýsluhluti hólfsins)
- Öræfahólf
Á þessum svæðum hefur aldrei verið greind riða og garnaveiki hefur ekki greinst þar síðastliðin 10 ár. Hvorki er leyfilegt að flytja líffé inn í hólfin né á milli þeirra.
Ósýkt varnarsvæði
Ósýkt varnarsvæði eru svæði þar sem engar takmarkanir eru settar á flutninga með lifandi fé milli hjarða innan svæðis.
Ósýkt svæði eru eftirfarandi:
- Vesturlandshólf
- Dalahólf
- Vestfjarðahólf vestra
- Miðfjarðarhólf
- Grímseyjarhólf
- Eyjafjarðarhólf
- Norðausturhólf (önnur svæði en líflambasöluhlutinn)
- Héraðshólf
- Austfjarðahólf
- Suðausturlandshólf
- Eyjafjalla- og Vestur-Skaftafellssýsluhólf
- Rangárvallahólf
- Grímsnes- og Laugardalshólf
- Vestmannaeyjahólf
- Skjálfandahólf
Sýkt varnarsvæði
Á sýktum varnarsvæðum gildir að allir flutningar á fé milli hjarða innan þessara svæða og frá þeim eru bannaðir.
- Vatnsneshólf – Aflétting hafta 1.1.2042
- Húna- og Skagahólf – Aflétting hafta 1.1.2042
- Tröllaskagahólf – Aflétting hafta 1.1.2041
- Suðurfjarðahólf – Aflétting hafta 1.1.2026
- Hreppa-, Skeiða- og Flóahólf – Aflétting hafta 1.1.2031
- Biskupstungnahólf – Aflétting hafta 1.1.2025
- Hluti Landnámshólfs – Aflétting hafta 1.1.2024
Ítarefni
Upplýsingasíða MAST um flutninga og sjúkdómavarnir fyrir sauðfé og geitur